Búið er að selja 62 af 64 íbúðum í Brautarholti 18-20 í Reykjavík en þær komu í sölu í apríl. Söluverð íbúðanna hleypur á milljörðum króna.
Um er að ræða atvinnuhúsnæði sem breytt var í íbúðir og atvinnurými á jarðhæð. Mörg fyrirtæki hafa haft þar aðsetur í gegnum tíðina og muna margir eflaust eftir Þórskaffi í Brautarholti 18 og Baðhúsi Lindu Pétursdóttur í Brautarholti 20, á horni Brautarholts og Nóatúns.
Níu seldust í forsölu
Byggingarfélagið Upprisa hefur farið með endurgerð hússins.
Steindór Snær Ólason, framkvæmdastjóri Upprisu, segir verkefnið hafa hafist í árslok 2020. Íbúðirnar hafi komið í sölu í apríl og hafi níu selst í forsölu.
Nú séu tvær íbúðir af 44 óseldar í Brautarholti 20 en íbúðir í þeim hluta hússins verði afhentar í júlí. Allar 20 íbúðirnar séu seldar í Brautarholti 18 og verði þær afhentar fyrir haustið.
Spurður hvað hann telji skýra svo hraða sölu á íbúðunum segir Steindór Snær að skort hafi íbúðir af þessari stærð og á þessu verðbili. Um það vitni fjöldi ungra kaupenda.
Spurður um framhaldið segir hann Upprisu munu einnig endurbyggja Brautarholt 16 en þar verði 20 íbúðir og þjónusta á jarðhæð.
Hafa öðlast dýrmæta reynslu
Fyrirtækið hafi öðlast mikla reynslu af slíkum verkefnum. Umbreyting á Héðinshúsinu í CenterHótel Granda hafi verið eldskírn á þessu sviði og með Brautarholtinu sé komin dýrmæt reynsla sem nýta eigi í fleiri verkefnum.
Heimild: Mbl.is