Einar Þorsteinsson verður formaður borgarráðs fyrstu átján mánuði kjörtímabilsins, en tekur við borgarstjóraembættinu af Degi B. Eggertssyni að þeim tíma liðnum.
Einar segir að sér þyki ekki verra að fá þessa fyrstu mánuði til þess að setja sig vel inn í stjórnkerfið, kynnast ferlinu við ákvarðanatökur, eiga samskipti við starfsfólk og kynnast starfinu betur.
Þá bendir hann á að formaður borgarráðs sé annað valdamesta embættið í borginni.
„Við töldum þetta skynsamlegustu skiptingu á verkefninu, hann byrjar fyrstu átján mánuðina og svo tek ég við og verð meirihluta kjörtímabilsins.“
Höfuðborgin eigi að taka forystu
Framsóknarflokkurinn boðaði breytingar í kosningabaráttu sinni fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar. Nú hefur verið myndaður nýr meirihluti þar sem Framsóknarflokkurinn bætist í hóp þriggja flokka sem skipuðu meirihluta borgarstjórnar á síðasta kjörtímabili.
Í upphafi málefnasamningsins má sjá átján breytingar sem nýr meirihluti boðar.
„Við boðum metnaðarfyllri áætlanir í húsnæðismálum. Hér hefur skapast umframeftirspurn, verð hækkar og verðbólga eykst. Svo hækkar fasteignamat í engu samræmi við eðlilega þróun. Eina leiðin út úr þessu er að byggja meira og þar á höfuðborgin að taka forystu.“
Einar segir flokkana sem mynda hinn nýja meirihluta, sammála um það og tilbúna í þessa vegferð. Þá bendir hann á að Framsóknarflokkurinn hafi lagt til og fengið samþykkt að hefja uppbyggingu á svæðum, þar sem tillögur voru felldar á síðasta kjörtímabili, Úlfarsárdal og Kjalarnes.
Skýr pólitískur vilji
Sundabrautin verður sett í umhverfismat samkvæmt málefnasamningnum. Einar vonast til þess að það verði gert strax í sumar. Verkinu á að ljúka árið 2031, samkvæmt verkáætlun innviðaráðuneytisins.
„Stóra fréttin í þessu er að þessi meirihluti stendur að baki þessu verkefni og ætlar að vinna að þessu með því að hefja umhverfismat og taka tillit til Sundabrautarinnar í skipulagsvinnu. Það er skýr pólitískur vilji núna og það er breyting.“
Eitt ár eða meira
„Við viljum virða samninga um flugvöllinn en við viljum líka þetta hverfi,“ segir Einar um afstöðu nýs meirihluta til Reykjavíkurflugvallar.
Í samningi borgarinnar og sveitarstjórnarráðherra er kveðið á um að flugvöllurinn fari ekki úr Vatnsmýrinni nema honum sé fundinn nýr staður sem henti vel og það ógni ekki flugöryggi.
Einar segir að verið sé að árétta þetta og veita Isavia umboð til þess að meta áhættuna og áhrif þess á flugöryggi, að flytja flugvöllinn í Hvassahraun. Þegar þau gögn liggi fyrir verði hægt að taka næstu skref með hliðsjón af þeim.
„Þetta er í samræmi við áherslur okkar, að byggja hratt og vel. Þarna er komið vilyrði fyrir lóðum undir íbúðir fyrir stúdenta, lágtekjufólk og fyrstu kaupendur, þetta er bara mjög mikilvægt hverfi. Ef það er hægt og öruggt fyrir flugumferð þá verður byggt þarna.“
Heimild: Mbl.is