Glerverksmiðjan Samverk á Hellu, Trésmiðjan Börkur Akureyri, Gluggasmiðjan Selfossi og Sveinatunga hafa nú sameinast undir einu nafni, Kambar. Áætluð ársvelta hins sameinaða félags er um 2,5 milljarðar króna og er félagið með starfsemi á fimm stöðum á landinu.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Kristján Geir Gunnarsson er nýráðinn framkvæmdastjóri sameinaðs rekstrar þessara félaga. Hann segir að innan þessara fyrirtækja sé mikil þekking á íslenskum byggingarmarkaði sem byggst hafi upp í tugi ára.
„Allar vörur þeirra eru sérstaklega þróaðar fyrir íslenskar aðstæður og afgreiðslutími er mun skemmri vegna nálægðar við markaðinn,“ segir Kristján Geir um sameininguna.
„Kambar framleiða vörur í hæsta gæðaflokki fyrir krefjandi íslenskar aðstæður. Vörurnar byggjast á íslensku verklagi og framúrskarandi hugviti. Við framleiðum umhverfisvænar vörur sem eru til hagsbóta fyrir umhverfið og samfélagið.
Ég hef sérstaklega áhuga á að leiða metnaðarfulla sýn Kamba, sem er að verða umhverfisvænasti framleiðandi glugga, glers og hurða í heiminum og loka þannig húsinu á umhverfisvænasta máta sem til er,“ segir Kristján Geir ennfremur.
Heimild: Mbl.is