Lokuðu útboði um fullnaðarhönnun húsnæðis Heilbrigðisvísindastofnunar Háskóla Íslands lauk í síðustu viku með töku tilboðs ráðgjafahóps undir forystu Verkís.
Ráðgjafahópinn skipa auk verkfræðistofunnar Verkís hf. TBL arkitektar (T.ark arkitektar ehf., Batteríið sf. og Landslag ehf.) og John Cooper Architecture (JCA). Gengið hefur verið til samninga við ráðgjafahópinn á grundvelli niðurstöðu útboðsins.
Fjórir ráðgjafahópar öðluðust þátttökurétt í lokuðu útboði með tilkynningu um niðurstöðu forvals og skiluðu þeir allir inn fullgildri tillögu í útboðinu.
Matsnefnd sem skipuð var fimm aðilum lagði mat á innsendar tillögur og gaf þeim einkunnir samkvæmt fyrirfram ákveðnu matskerfi útboðsgagna.
Bygging Háskóla Íslands á Hringbrautarsvæðinu er hluti af uppbyggingu á nýjum Landspítala, en gert er ráð fyrir að Háskóli Íslands flytji nær alla starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs í endurbættan Læknagarð og nýbyggingu sem mun rísa sunnan nýs meðferðarkjarna og tengjast Læknagarði sem er þar fyrir.
Auk nýbyggingarinnar, sem er um 8.300 m2, , á að breyta skipulagi og starfsemi í Læknagarði.
„Við hjá NLSH erum mjög ánægð með þátttökuna í útboðinu, en það bárust fjórar vandaðar tillögur fyrir matsnefnd að velja úr. Vinningstillagan er vel leyst og endurspeglar góðan skilning á verkefninu.
Ég er þess fullviss að nýbyggingin eigi eftir að sóma sér vel á Hringbrautarlóðinni með bæði gömlum og nýjum byggingum á svæðinu,” segir Bjargey Björgvinsdóttir á hönnunarsviði NLSH.
Heimild: NLSH