Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Framkvæmdir ganga vel við lúxushótelið „Höfði Lodge” við Grenivík

Framkvæmdir ganga vel við lúxushótelið „Höfði Lodge” við Grenivík

370
0
Allt sem prýðir lúxushótel má finna á Höfða Lodge við Grenivík.

Hafist verður handa nú í mars næstkomandi við að steypa upp lúxushótel sem reist verður á lóðinni Skælu á Þengilhöfða við Grenivík.

<>

Framkvæmdir hófust í fyrrasumar, en þá var unnið að vegagerð frá þorpinu og að svæðinu, einnig jarðvegsvinnu og settir voru niður vatnstankar. Vinnubúðir hafa verið settar upp á gömlum malarvelli á Grenivík og þar er pláss fyrir 16 til 18 starfsmenn.

Stefnt er að því að hótelið hefji starfsemi haustið 2023. Alls verða 40 vel útbúin herbergi á hótelinu, þar af nokkrar svítur. Jafnframt uppbyggingu mannvirkja er einnig hugað að því að auka og efla ferðaþjónustu á svæðinu en margs konar afþreying stendur væntanlegum gestum hótelsins til boða.

Það er félagið Höfði Develop- ment, þróunarfélag sem byggir Höfði Lodge hótel á Þengilhöfða við Grenivík. Að því standa félagarnir og fyrrum skíðamennirnir Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein.

Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein standa að félaginu Höfði Development.

Hótelið er um 6 þúsund fermetrar
Framkvæmdir hófust á liðnu ári með vegagerð upp á Þengilhöfða og jarðvegsvinnu er einnig lokið. Björgvin segir að steypuvinna hefjist í mars og gert sé ráð fyrir að sú vinna taki nokkra mánuði, verkinu verði lokið þegar líður á sumarið, í júlí eða ágúst.

„Við gerum ráð fyrir að einhver mynd verði komin á svæðið þegar haustar og þá nýtum við næsta vetur til að vinna innandyra við allt sem gera þarf þar,“ segir hann. Hótelið sjálft er um 6 þúsund fermetrar að stærð, en að auki verður byggð upp starfsmannaaðstaða í nokkrum húsum á svæðinu, samtals um eitt þúsund fermetrar, og eins verður reist 350 fermetra hesthús. Björgvin segir húsin að mestu smíðuð í Lettlandi og flutt til Íslands í einingum.

„Það verður fljótlegt að setja þau saman þegar þau koma, það gerist hratt,“ segir hann. „Við stefnum á að ljúka þessu öllu og að hefja starfsemi hér haustið 2023.“ Gert er ráð fyrir að á bilinu 40 til 50 manns starfi á hótelinu þegar rekstur er kominn í fullan gang.

Einstakt útsýni út Eyjafjörð er eitt af því sem gerði útslagið varðandi staðarval hótelsins, sem og nálægð við ósnortna náttúru og gott skíðasvæði. Þá nefnir hann að Höfði Development rekur þegar ferðaþjónustufyrirtækin Viking Heliskiing og Scandic Mountain Guides og hafi margoft komið með gesti sína til að stunda skíðamennsku t.d. á Kaldbak.

„Við höfum alltaf fengið mjög góðar móttökur á Grenivík og upplifum alltaf að við séum meira en velkomin þangað. Það auðvitað hafði sitt að segja,“ segir hann, en til viðbótar nefnir hann að eiginkona sín sé frá Grenivík og að afi hennar og amma hafi verið með umrætt land í erfðafestu og voru þar með kartöflurækt.
„Það er alveg góð tenging við staðinn.“

 

Útsýni frá hótelinu út Eyjafjörð er sérlega tilkomumikið og ekki ónýtt að fylgjast með sólarlaginu á fallegu sumarkvöldi þaðan.

Útivist og náttúruupplifun helsta aðdráttaraflið
Björgvin segir að samhliða upp­byggingu á hótelinu sé einnig unnið að því að byggja upp afþreyingar­ferðaþjónustu á svæðinu.

„Það verður mikið í boði fyrir þá gesti sem sækja okkur heim, það er alveg ljóst að fólk verður að hafa eitthvað við að vera þegar það dvelur á svæðinu og er í raun lykillinn að því að fá fólk til að koma,“ segir hann. Helsta aðdráttaraflið felist í útivist og náttúruupplifun en Björgvin nefnir að á meðan skíðatíð standi yfir verði gert út á slíkar ferðir og verði stórt og gott skíðaherbergi til staðar á hótelinu fyrir búnaðinn.

Hann segir skíðaferðir hafa um árin notið vaxandi vinsælda og engin merki um annað en svo verði áfram. Gestir geti einnig þeyst um fjalllendið á vélsleðum.

Þá nefnir hann að sjórinn verði nýttur og það sem hann býður upp á, bátar, kajakar og róðrarbretti verði í boði fyrir þá sem vilja, sem og hvalaskoðunarferðir. Göngu- og hjólaferðir og hestaferðir séu einnig góð dægradvöl fyrir þá sem njóti lífsins á Höfða. Fjöllin umhverfis bjóði upp á skemmtilegar fjallgöngur. Veiði ýmiss konar mun standa gestum til boða, rjúpa og gæs og lax svo dæmi séu nefnd.

Vegagerð frá Grenivík og upp á hótelsvæðið á Þengilhöfða hófst í fyrra.

Ísland verður áfram vinsælt
Á hótelinu verður veitingastaður, stórt og gott spa, þar verður golfhermir fyrir gesti, bíósalur og fundarherbergi.

„Þarna verður að finna allt það sem prýðir gott hótel. Gestir hafa kost á því að slaka á kjósi þeir það og einnig að hafa nóg fyrir stafni frá morgni til kvölds,“ segir Björgvin.
Hann segist hafa fulla trú á að ferðaþjónusta á Íslandi muni fyrr en varir rétta úr kútnum.

„Hún verður komin á fullan skrið áður en við vitum af. Ísland verður alveg örugglega áfram vinsælt meðal ferðalanga, við höfum upp á svo margt að bjóða sem fólk sækir í um þessar mundir. Kyrrð, fallega náttúru og mikla upplifun,“ segir Björgvin.

Vegagerð frá Grenivík og upp á hótelsvæðið á Þengilhöfða hófst í fyrra.

Heimild: BBL.is