Hann segist skilja vel þau náttúruverndarsjónarmið sem gagnrýnendur fyrirhugaðra framkvæmda halda á lofti, en með mótvægisaðgerðum yrði strandlengjan aðgengilegri fyrir almenning.
700 metra löng landfylling
Í Speglinum í gær var rætt við Ólaf K. Níelsen formann Fuglaverndar, en hann hefur ásamt fjölmörgum öðrum gagnrýnt áform Reykjavíkurborgar um landfyllingu í Grófavík í Skerjafirði. Landfyllingin er fylgifiskur fyrirhugaðrar 1300 íbúða byggðar vestan við suðurenda Reykjavíkurflugvallar. Landfyllingu verður á ríflega 700 metra löngum kafla, sem næði 100 metra út í sjó.
Verulega neikvæð áhrif á lífríki
Í frummatsskýrslu sem verkfræðistofan Efla gerði fyrir Reykjavíkurborg kemur fram að framkvæmdin hefði talsverð neikvæð áhrif á fuglalíf og verndarsvæði og verulega neikvæð áhrif á gróður, strand- og sjávarlífríki. Pawel Bartoszek er formaður Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. Spegillinn ræddi við hann í dag og spurði fyrst hvort nauðsynlegt væri fyrir nýja byggð að fylla upp í víkina.
Ekki eins sjálfbært hverfi
„Það er hægt að byggja upp upp hverfi þannig séð án þess að fylla upp í víkina. Hverfið yrði þá bara minna, fámennara og minna sjálfbært” segir Pawel Bartoszek. „Ef spurningin er hvort ákvörðunin um að falla frá þessari landfyllingu myndi hafa í för með sér að hætt yrði við alla uppbyggingu, þá er það ekki.
Hins vegar teljum við að hverfið gæti orðið talsvert betra, sjálfbærara og fjölmennara með því að ráðast í landfyllingu á þessum stað. Og að sama skapi yrði strandlengjan líka að einhverju leyti aðgengilegri fyrir þá notendur sem þarna eru”.
Nálguðumst málið af nærgætni
Er það þess virði að fórna náttúrulegu umhverfi fyrir þetta?
„Ég vil segja að við höfum nálgast þetta mál af mikilli nærgætni og fagleika á öllum stigum málsins. Við höfum ráðist í gerð umhverfismats, sem er ekki lögbundið miðað við stærð þessarar landfyllingar. Engu að síður vildum við ná utan um umfang allra þessara áhrifa sem þarna koma fram. Það þarf líka að skoða þetta mál í ljósi þeirra mótvægisaðgerða sem boðaðar eru á sama tíma”.
Líka loftslagssjónarmið
„Ég get bara talað fyrir sjálfan mig að ég myndi aldrei ráðast persónulega í þetta ferli ef ég teldi að væri ekki eitthvað unnið með því að fara í þessa landfyllingu. Ég skil vel sjónarmiðin með náttúruverndina, en á sama tíma þá er þetta loftslagssjónarmið líka. Við viljum hafa fleiri íbúa á þessum stað til þess að hverfið geti orðið sjálfbærara, skólahverfi sem virkar vel, verslun og þjónustu”.
Gæti orðið kosningamál
Verður þetta Skerjafjarðmál kosningamál í vor?
„Það gæti alveg orðið svo. Það er ekkert óeðlilegt að svona mál sem varða skipulag sé mál sem fólk tekur sína ákvörðun um. Mín skoðun hefur alltaf verið sú að vera fylgjandi uppbyggingu í Vatnsmýrinni. Ég get alveg átt von á því að það verði kosið um þessi mál, eins og hefur verið gert í undanförnum kosningum”.
Heimild: Ruv.is