Home Fréttir Í fréttum Vegur um Teigsskóg í útboð og stefnt á að hefja verkið í...

Vegur um Teigsskóg í útboð og stefnt á að hefja verkið í vor

195
0
Sigurþór Guðmundsson, verkefnisstjóri Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, í viðtali við höfuðstöðvar Vegagerðarinnar í Garðabæ í dag. ARNAR HALLDÓRSSON

Vegagerð um Teigsskóg er komin í útboðsferli. Stefnt er að því að búið verði að semja við verktaka í kringum páska og að framkvæmdir fari á fullt með vorinu.

<>

Þetta er að verða nítján ára saga íslenskrar stjórnsýslu. Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að það var sumarið 2003 sem Vegagerðin hóf formlegt umhverfismat vegna Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Loksins, loksins, segja eflaust margir. Núna er komið að því að bjóða verkið út.

„Já, það er komið að því núna. Við erum að fara út með það,“ segir Sigurþór Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni.

Hér sést veglínan um Teigsskóg ásamt þverun í innanverðum Þorskafirði, sem núna er unnið að.
VEGAGERÐIN

Kaflinn sem núna er boðinn út liggur um utanverðan Þorskafjörð og í gegnum hinn eiginlega Teigsskóg og er nærri ellefu kílómetra langur.

„Þetta er sem sagt verkið frá Þórisstöðum og yfir á Hallsteinsnes og þar af leiðandi aðeins út í Djúpafjörð líka, út að brúarstöpli þar, sem við ætlum að byggja.“

Búið er að senda útboðstilkynningu til EES og býst Sigurþór við að auglýsingin birtist á næstu dögum. Tilboð verði væntanlega opnuð í síðari hluta marsmánaðar og vonast hann til að búið verði að semja við verktaka í kringum páska.

En hvenær má búast að ýturnar verði komnar á svæðið?

Séð yfir Teigsskóg þar sem vegurinn á að liggja. Þorskafjörður á vinstri hönd.
VEGAGERÐIN

„Í maí væri náttúrlega rosalega fínt. Apríl – maí,“ svarar Sigurþór og tekur fram að það ráðist af aðstæðum eins og veðri og hvernig verktaka gangi að koma sér fyrir.

Stefnt er að verklokum þessa áfanga haustið 2023. Það þýðir að þá verður hægt að sneiða framhjá Hjallahálsi en núna er unnið að lagningu tengivegar milli Hallsteinsness og Djúpadals.

Síðar á þessu ári er svo gert ráð fyrir að næsti áfangi verði boðinn út; kafli yfir Gufufjörð, milli Melaness og Gróness, og út í Djúpafjörð, með 130 metra brú yfir Gufufjörð og 58 metra brú yfir Djúpafjörð.

Gufufjörður og Djúpifjörður verða þveraðir í síðari áföngum verksins.
VEGAGERÐIN

Lokaáfanginn verður svo 210 metra löng brú yfir Djúpafjörð og er gert ráð fyrir að hann verði boðinn út á næsta ári.

En hvenær verður svo allt verkið tilbúið?

„Við erum nú ekki búnir að gefast upp á dagsetningunni 2024. Það er svona spurning hvort það næst. Þetta er ansi mikið í gangi á litlu svæði.

En svona.. 2024-25. Helst ´24 að klára,“ svarar verkefnisstjóri Vestfjarðavegar um Gufudalssveit.

Heimild: Visir.is