Félagið Hveradalir ehf. hefur birt umhverfismatsskýrslu vegna fyrirhugaðs baðlóns og baðhúss í Stóradal á Hellisheiði, nálægt skíðaskálanum í Hveradölum.
Þar kemur fram, að stefnt er að því að hefja framkvæmdir á þessu ári og að framkvæmdatími sé áætlaður 3-4 ár. Kostnaður við uppbygginguna í heild sinni er áætlaður um 6 milljarðar króna
Gert er ráð fyrir að baðlónið verði allt að 6 þúsund fermetrar og baðhúsið um 4 þúsund fermetrar. Það verður á tveimur hæðum og með kjallara fyrir tækjabúnað. Einnig er gert ráð fyrir bílastæðum fyrir allt að 300 fólksbíla og 10 rútur.
Upphaflega var gert ráð fyrir að 120 herbergja hótel yrði hluti framkvæmdarinnar, en hætt hefur við þann hluta auk áhaldahúsa sem áttu að rísa við Skíðaskálann.
Vatninu skilað aftur
Orkuveita Reykjavíkur er eigandi landsins en Hveradalir ehf. hafa gert samning við Orkuveituna um leigu 46 hektara lóðar við Skíðaskálann í Hveradölum, sem var undirritaður 2014.
Skiljuvatnið sem notað verður í baðlóninu kemur frá Hellisheiðarvirkjun og frá lóninu verður baðvatni skilað sömu leið aftur til virkjunarinnar og fargað með niðurdælingu í jarðhitakerfið ásamt öðru skilju- og þéttivatni virkjunarinnar.
Heimild: Mbl.is