Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur hafnað kröfu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að loka NA/SV flugbraut (06/24 flugbraut) eða svokallaðri neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli.
Þetta kom fram á fundi borgarráðs í morgun þar sem lagt var fram svarbréf innanríkisráðherra.
Í bréfinu segir ráðherra það eðlilegt að láta reyna á samninga um lokun neyðarbrautarinnar fyrir dómsstólum. „Og það er það sem við erum að fara að gera,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.
Í bréfi ráðherra er rökum Reykjavíkurborgar að innanríkisráðuneytinu f.h. íslenska ríkisins sé skylt að tilkynna lokun NA/SV flugbrautarinnar og gera breytingar á skipulagsreglum og mögulegri bótaskyldu ríkisins vegna fyrirhugaðra byggingaráforma á Hlíðarendasvæði mótmælt.
Snýst um að samningar standi
„Vegna tilvísunar Reykjavíkurborgar til mögulegrar málshöfðunar á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á kröfum sínum um að brautinni verði lokað og skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll breytt, er tekið fram að telja verði eðlilegt að Reykjavíkurborg leggi fyrir dómstóla að fá úr þeim álitamálum leyst þannig að skorið verði úr um hvort sú skylda hvíli á ríkinu að loka flugbrautinni eða skipulagsreglum breytt,“ segir í tilkynningu.
Þarf að tryggja öryggi og þjónustu
Í bókun Framsókn og flugvallavina er því fagnað að málsmeðferð vegna Reykjavíkurflugvallar sé „nú loks komin í faglegt ferli. Innanríkisráðherra hefur yfirumsjón með flugmálum og ber ábyrgð á því að fyllsta flugöryggis sé gætt meðal annars á grundvelli alþjóðlegra reglna. Til að unnt sé að taka ákvörðun um lokun flugbrautar er ekki nóg að taka flugbraut út af skipulagi eins og meirihlutinn gerði heldur verður það að liggja fyrir að lokun flugbrautarinnar komi ekki niður á öryggi flugvallarins og að viðhalda megi fullnægjandi þjónustustigi fyrir alla landsmenn. Slíkt lá hvorki fyrir þegar meirihlutinn ákvað að taka flugbrautina út af skipulagi né liggur það nú fyrir. Ekki liggja fyrir nauðsynleg gögn til að taka afstöðu til lokunar flugbrautarinnar en í niðurstöðu Samgöngustofu frá því í sumar um áhættumatið kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur og þurfi að gera sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24,“ segir í bókum Framsóknar og flugvallavina.
Skýrsla stýrihópsins ekki ein lögð til grundvallar
Í tilkynningu frá Framsókn og flugvalla vinum er vitnað í bréf innanríkisráðherra sem segir þar það mikilvægt að ríki og Reykjavíkurborg vinni áfram saman að því að ná samkomulagi um framtíð Reykjavíkurflugvallar í samráði við aðra þá sem hagsmuni eiga að gæta. Leggur ráðherra í bréfinu áherslu á að sú vinna einskorðist ekki við ákveðna niðurstöðu um framtíðarstaðsetningu heldur horfi til markmiða löggjafar á sviði samgöngu- og flugmála og hlutverks flugvallarins.
Tekið er fram að könnun stýrihópsins um aðra flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu beindist að því að skoða hvort önnur flugvallarstæði en Vatnsmýrin kæmu til greina til rekstur innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu en hvorki til óbreytts flugvallar í Vatnsmýri né Keflavíkurflugvallar og því taka tillögur stýrihópsins mið af þeim forsendum sem lagt var upp með þ.e. hvort önnur flugvallarstæði en Vatnsmýrin kæmu til greina. Skýrsla stýrihópsins verði ekki ein lögð til grundvallar frekari greiningu eða viðræðum en sé gott innlegg í framtíðarstefnumörkun innanlandsflugs.
Óraunhæft að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýri
Þá er áréttað að innanríkisráðherra hafi yfirumsjón með flugmálum og beri ábyrgð á heildstæðri stefnumörkun í samgöngum og beri að vinna að markmiðum laga á þessum sviðum og þurfi því m.a. að gæta að flugöryggi, fjárhagslegri hagkvæmni og skilvirkni samgöngukerfisins og samþættingu þess, byggðaþróun og aðgengi landsmanna að grunnþjónustu. Verði viðræður við Reykjavíkurborg og aðra hagsmunaðila um framtíð Reykjavíkurflugvallar að taka mið af þessum markmiðum og því mikilvæga þjónustuhlutverki sem flugvöllurinn gegnir gagnvart landinu öllu.
„Tekur innanríkisráðherra fram að ljóst megi vera að óraunhæft sé að ætla annað en að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri í næstu framtíð og tryggja verður fullt öryggi flugvallarins í Vatnsmýrinni og þjónustustig sem samræmist hlutverki vallarins. Ákvörðun um lokun NA/SV flugbrautarinnar verði ekki tekin án fullvissu um að lokun brautarinnar komi ekki niður á öryggi flugvallarins og að viðhalda megi fullnægjandi þjónustustigi fyrir alla landsmenn,“ segir í tilkynningu Framsóknar og flugvallavina.
„Ekki sé á þessu stigi unnt að lýsa yfir hver niðurstaðan verði, en ráðuneytið hafi nú m.a. til skoðunar áhættumat Isavia og niðurstöðu Samgöngustofu um áhrif lokunar flugbrautarinnar, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 1. júní sl.“
Heimild: Mbl.is