„Ég uppgötvaði þaraböðin þegar ég bjó úti á Álftanesi fyrir rúmum áratug og þessi hugmynd hefur ekki látið mig í friði síðan,“ segir Bogi Jónsson athafnamaður.
Félag á hans vegum fékk á dögunum úthlutaðar fimm milljónir króna úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja til uppbyggingar glæsilegrar heilsulindar við sjávarsíðuna í Garði.
Verkefnið ber heitið Mermaid – Geothermal Seaweed Spa og hefur verið á teikniborðinu í nokkur ár.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Áætlaður kostnaður við uppbygginguna er 1,3 milljarðar króna og segir Bogi að líkja megi stærð Mermaid við Kraumu í Borgarfirði eða Fontana á Laugarvatni.
„Við stígum mjög varlega til jarðar og allar áætlanir gera ráð fyrir að þó að það kæmi annar heimsfaraldur þá myndi reksturinn ganga á innlendum ferðamönnum,“ segir hann en gert er ráð fyrir að hjá Mermaid muni starfa um 45 manns auk þess sem starfsemin muni leiða af sér fjölda annarra starfa og styðja við fjölbreytta starfsemi á svæðinu.
Bogi er mörgum kunnur af veitingarekstri frá fyrri tíð. Hann hefur síðustu ár verið búsettur á Garðskaga og sér mikil tækifæri þar.
Á Mermaid er stefnan að bjóða upp á sérhæfðar heilsu- og vellíðunarmeðferðir á borð við þaraböð, jurtagufuböð, hefðbundin gufuböð, nudd, hvíldarsvæði, heita potta og laugar.
Þar verður einnig rekinn rómantískur sjávarréttaveitingastaður undir asískum áhrifum.
„Þaraböðin verða okkar sérstaða en þau hafa mjög slakandi og góð áhrif á líkamann, maður verður allur silkimjúkur eftir þau.
Þaraböðin hafa líka verið notuð sem lækningameðferð í gegnum tíðina, til dæmis fyrir fólk með exem og þurra húð,“ segir Bogi.
Heimild: Mbl.is