Rekstraraðilar í grennd við framkvæmdareit á Vatnsstíg í miðbæ Reykjavíkur eru allt annað en sáttir við hávaða sem kemur þaðan, sér í lagi vegna stórvirks höggbors sem notaður er til að bora fyrir bílakjallara á lóðinni.
Framkvæmdir með höggbornum áttu upphaflega að taka 8-10 daga en síðan hafa þrír mánuðir liðið og enn er borað. Heimild er til þess að bora frá því snemma á morgnana og þar til rétt fyrir kvöldmatarleyti.
„Þetta er bara ömurlegt,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, sem er við hliðina á framkvæmdunum.
Leyfi borgarinnar frestar sýningum sem borgin fyrirskipar
Þar hefur þurft að fresta sýningum yfir daginn, sem haldnar eru þrisvar í viku fyrir grunnskólanemendur í Reykjavík. Sýningarnar eru haldnar í samstarfi við Reykjavíkurborg, sem veitir síðan heimild fyrir framkvæmdum sem trufla starfsemina.
„Við höfum þurft að fresta skólasýningunum og af því okkur var alltaf sagt að þetta yrði búið bara í lok vikunnar, þá ætluðum við að halda uppbótarsýningar sem síðan þurfti líka að fresta. Ótrúlega gaman að gera börnum það,“ segir Hrönn í kaldhæðnistón.
Hún segir verktakann á svæðinu, Leiguíbúðir ehf., hafa reynt að koma til móts við rekstraraðila með því að bora aðeins á fyrirframákveðnum tímum.
Þrátt fyrir það segir Hrönn að það sé ansi þreytandi að verkefni sem hafi átt að taka rúma viku sé enn í gangi þremur mánuðum síðar.
„Ég er búin að tala við byggingafulltrúa sem segist ekkert geta gert. Það sé til staðar leyfi til að vera með læti til sex á daginn og ég er búin að vera í sambandi við verktakann.
Og ég vorkenni honum í sjálfu sér, af því hann hefur reynt að koma til móts við okkur. Þegar við vorum með barnakvikmyndahátíð í október þá gerði hann hlé á framkvæmdunum til þess að eyðileggja ekki heila hátíð fyrir okkur, sem hafði þá þegar verið frestað út af Covid,“ segir Hrönn.
Veit ekki hvort tekjutap verði bætt
Hún segir einnig að Bíó Paradís hafi orðið fyrir tekjutapi vegna hávaðans, sem hún veit síðan ekki hvernig verði bætt. Hún nefnir í samhengi við það þegar kvikmyndahúsið varð fyrir tekjutapi á meðan framkvæmdir á Hverfisgötu stóðu yfir, að þá hafi borgin ekki bætt það tap.
„Þetta er heilmikið tekjutap og það virðist enginn bera ábyrgð. Byggingafulltrúi segir bara að þetta sé leyfilegt og að það sé ekkert sem hægt sé að gera,“ segir Hrönn.
En var haft eitthvað samráð við ykkur þegar þetta var ákveðið, voru þið eitthvað spurð hvað ykkur þætti um þessar framkvæmdir?
„Nei,“ segir Hrönn en bætir við að leigusali bíósins segi að málið hafi verið honum vel kynnt.
Slysahætta, hávaði og tekjutap
Og áhrifa framkvæmdanna og hávaðans gætir á fleiri stöðum, eins og gleraugnasalar á horni Vatnsstígs og Hverfisgötu geta vitnað um.
„Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það er að taka sjónpróf, sem verða að vera 100% nákvæm, í þessu ástandi,“ segir Anna Þóra Björnsdóttir, sem rekur gleraugnaverslunina Sjáðu ásamt eiginmanni sínum Gylfa Björnssyni.
Hún segist ekki skilja hver geti gefið leyfi fyrir því að starfsemi raskist með þessum hætti og það svona mun lengur en lofað var í upphafi.
„Það er svo ömurlegt að það sé hægt að ráðast svona á lífsviðurværi manns aftur og aftur. Ég spyr bara: hver gefur leyfi fyrir því að bisnessnum hjá manni sé rústað svona,“ segir Anna.
Til viðbótar við höggborinn, sem veldur mestum hávaða, segir Anna að stórvirk vinnutæki séu notuð til þess að ferja grjótið sem borað er uppúr jörðinni. Það eitt og sér valdi miklum truflunum og valdi mikilli hættu, sérstaklega í skammdeginu sem nú er.
„Svo eru stærstu vörubílar sem til eru notaðir við að ferja grjótið í burtu. Það er mjög dimmt hérna bæði morgna og kvölds. Þannig eru þeir í kolsvartamyrkri að bakka hérna upp þröngar götur sem skapar mikla slysahættu.
Af hverju er ekki opnað beint inn á stofnbraut þannig það sé hægt að ferja grjótið á auðveldari máta, í stað þess að verið sé að keyra fram og til baka upp og niður Hverfisgötuna.
Þetta virðist bara vera gert einhvern veginn og einhvern veginn,“ segir Anna og bætir við að fleiri rekstraraðilar í kring séu á sama máli.
Heimild: Mbl.is