Home Fréttir Í fréttum Fær 10 milljónir í bætur eftir að Árborg neyddi hann til að...

Fær 10 milljónir í bætur eftir að Árborg neyddi hann til að lækka húsið

348
0
Hraunhella 19a á Selfossi. Mynd: Aðsend

Sveitarfélagið Árborg þarf að greiða Sverri Sigurjónssyni, eiganda samlagsfélagsins Superior á Selfossi, 10 milljónir króna í skaðabætur fyrir að neyða hann til að fara í kostnaðarsamar framkvæmdir til að lækka hæðina á húsinu sínu við Hraunhellu 19.

<>

Þetta kemur fram í dómi sem var kveðinn upp 3. nóvember síðastliðinn í Héraðsdómi Suðurlands. Dómurinn er ítarlegur, 25 blaðsíðna langur þar sem saga hússins frá fyrstu teikningum er reifuð.

Málið má rekja til mistaka sem voru gerð við hæðarútsetningu íbúðarhússins vegna háttsemi starfsmanna sveitarfélagsins. Árborg bar ábyrgð á mistökunum samkvæmt almennu skaðabótareglunni og reglum um húsbóndaábyrgð, en mistökin voru til þess fallin að valda Sverri tjóni og fór hann fram á nær 17 milljónir í skaðabætur.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands.
Settu honum afarkosti
Þegar ljóst var í framkvæmdum eftir byggingin væri um 50 cm hærri en hún átti að vera óskaði Sverrir eftir leyfi til að halda áfram með byggingu hússins með lítils háttar breytingum.
Hann fékk það ekki og voru þá aðeins tveir kostir í stöðunni: Annað hvort að rífa niður allt sem búið var að gera og byrja aftur frá grunni eða saga í sundur sökkla hússins og lyfta upp kjallara og bílskúr sem búið var að steypa upp, samtals 350 tonn.
Síðan þyrfti að grafa undan húsinu þá 50 cm sem það hafi staðið of hátt og slaka svo húsinu niður aftur.

Seinni kosturinn varð fyrir valinu og þurfti Sverrir að greiða samtals 16.988.000 krónur fyrir framkvæmdirnar í formi skuldabréfs. Samkvæmt dómnum var hann fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni vegna málsins.

Dómarar gerðu athugasemdir um að Sverrir hafi ekki lagt fram reikninga til að styðja kröfu sína um nær 17 milljónir í bætur. Þótti dómurum 10 milljónir vera hæfilegar bætur auk fjögurra milljóna í málskostnað.

Sverrir Sigurjónsson lögmaður er eigandi félagsins samkvæmt fyrirtækjaskrá en aðalstarfsemi þess er eignarhald fasta- og lausafjármuna og ráðgjöf.

Heimild: Frettabladid.is