Yfirvöld í Katar hafa ekki rannsakað nægilega vel orsök dauðsfalla hjá erlendu vinnuafli síðastliðinn áratug, samkvæmt nýrri skýrslu Unicef, en árið 2010 vann Katar réttindi til að halda Heimsmeistaramótið í fótbolta árið 2022.
Meira en 6500 erlent starfsfólk frá Indlandi, Pakistan, Nepal, Bangladess og Sri Lanka hefur látist í byggingariðnaði í landinu síðan ákvörðunin var tekin, samkvæmt grein The Guardian frá því í febrúar á þessu ári.
Enn fremur er talið að tólf erlendir starfsmenn hafi látist í hverri viku að meðaltali frá lok árs 2010.
Landið hefur unnið að gríðarlegri uppbyggingu á þessum tíma, aðallega í tengslum við undirbúning fyrir þetta mót. Margt er búið en annað er enn í vinnslu. Meðal verkefnanna eru sjö nýir leikvangar, ný hótel, ný borg og nýr flugvöllur.
Merkingarlaus dánarvottorð
Um sjötíu prósent dánarvottorða sem yfirvöld Katar hafa gefið út vegna vinnuafls frá Indlandi, Nepal og Bangladess hafa haldið því fram að starfsfólkið, mest ungir menn, hafi dáið af illa skilgreindum náttúrulegum orsökum.
Allt starfsfólk sem hyggst ferðast til Katar og taka þátt í byggingarvinnu þarf að fara í gegnum heilsufarsathugun áður en farið er í ferðina.
Skýrslan gefur til kynna að þessi dánarvottorð séu svo gott sem merkingarlaus. Í góðu heilbrigðiskerfi ætti að vera hægt að skýra allt að 99 prósent dauðsfalla með meira afgerandi hætti.
Þegar dauðsfall er sagt vera af náttúrulegum orsökum fá fjölskyldur þess látna engar bætur. Í mörgum tilfellum eru þessar fjölskyldur einnig að tapa helstu fyrirvinnu heimilisins.
Langir dagar og líkamlega erfið vinna
Amnesty hefur áður vakið athygli á hættunum sem stafa af því að vinna langa daga og líkamlega erfiða vinnu í jafn heitu loftslagi og er í Katar.
Katar hefur gert einhverjar ráðstafanir til að lágmarka vinnutíma í mesta hitanum en Amnesty telur þó ekki nógu vel staðið að því að rannsaka hitatengd dauðsföll.
„Þegar tiltölulega ungir og hraustir menn deyja skyndilega eftir langan vinnudag í miklum hita, vekur það alvarlega spurningar um öryggi á vinnusvæðum í Katar,“ segir Steve Cockburn, forstjóri málefna tengdum efnahagslegu og félagslegu jafnrétti hjá Amnesty International.
„Með því að rannsaka ekki undirliggjandi orsök dauða erlends vinnuafls eru yfirvöld í Katar að hunsa hættumerki sem gætu bjargað lífum ef þau eru tekin alvarlega,“ segir Steve.
David Bailey, veirufræðingur sem starfar fyrir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina í nefnd um dánarvottorð, segir að frasar eins og „náttúruleg orsök“ ættu ekki að sjást á dánarvottorðum nema nánari útlistun fylgi.
Í skýrslunni eru mál sex manna skoðuð sérstaklega.
Heimild: Frettabladid.is