Ríkiskaup auglýsa nú eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu útboði vegna hönnunar á nýbyggingu við endurhæfingardeild Landspítala við Grensás.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Áætlaður heildarkostnaður við nýbygginguna er áætlaður um 2,9 milljarðar og verður nýbyggingin allt að 3.800 fermetrar.
Ríkiskaup auglýsa forvalið fyrir hönd Hringbrautarverkefnisins og er það opið öllum umsækjendum og auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.
Að því loknu mun verkkaupi velja fimm fyrirtæki úr hópi umsækjenda til þátttöku í lokuðu útboði.
Þá hefur mikill undirbúningur þegar farið fram við frumhönnun viðbyggingarinnar og deiliskipulag verið samþykkt.
Í tilkynningunni segir einnig að á undanförnum tveimur áratugum hafi orðið miklar breytingar á endurhæfingarstarfsemi vegna þess hversu margir lifa af alvarlega sjúkdóma og áverka. Því fari þörf fyrir öfluga og góða endurhæfingu vaxandi.
Endurhæfingardeildin á Grensás er nær 50 ára gamalt hús og sagt ekki standast nútímakröfur varðandi sjúkrahúsþjónustu.
Gert er ráð fyrir að eftir framkvæmdina verði meðferðarstofur sjúklinga ekki færri en 32 talsins, 13 í núverandi húsnæði og 19 í nýbyggingu.
Nánar á vef Stjórnarráðsins
Heimild: Mbl.is