Gangi allt að óskum verður hægt að aka til og frá suðurhluta Vestfjarða á malbikuðum vegi árið 2024.
Vegagerðin og landeigendur Grafar í Þorskafirði hafa náð samkomulagi um veglagningu í Gufudalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum og segir samgönguráðherra mjög ánægjulegt að sjá fyrir endann á verkefninu.
Eigendur Grafar voru þeir einu sem Vegagerðin hafði ekki náð samkomulagi við og hafa deilur um framkvæmdina staðið lengi.
Vegurinn á að hluta til að liggja um Teigsskóg. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir að smátt og smátt hafi hindrunum fækkað í samningsferlinu.
„Og að lokum eru menn bara sammála um að samkomulagi sé náð um að standa auðvitað vel að verki og vanda frágang eins og kostur er.“
Næst á dagskrá er útboð í haust um þverum Gufufjarðar. Verið er að gera jarðvegsrannsóknir í Teigsskógi og verða framkvæmdir þar boðnar út snemma á næsta ári. Samgönguráðherra kveðst mjög ánægður með að Vegagerðinni hafi tekist að ná samningum.
„Þetta er búið að vera verkefni sem hefur verið að þvælast í stjórnkerfinu í einhverja áratugi og ég er bara gríðarlega ánægður með Vegagerðina og alla þá sem að þessu máli hafa komið, að ná þessari niðurstöðu,“ segir Sigurður Ingi.
Verkefnið er með fulla fjárveitingu til ársins 2024, bæði á samgönguáætlun og fjármálaáætlun. Áætlað er að verklok verði árið 2024 á öllum þessum kafla.
„Þá verður kominn þarna nýr nútímavegur á suðurfjörðunum sem styttir vegalengdina til að mynda til Ísafjarðar um 50 kílómetra, það er 27 kílómetra stytting með Dýrafjarðargöngunum og 22 kílómetra stytting í Gufudalssveitinni með þessum nýju framkvæmdum.“
Heimild: Mbl.is