Home Fréttir Í fréttum „Það er í raun verið að fórna útivistarperlu fyrir steypu“

„Það er í raun verið að fórna útivistarperlu fyrir steypu“

86
0
Sigurborg Arnarsdóttir er formaður Útivistarsamtaka Kársness. RÚV – Guðmundur Bergkvist

Formaður Útivistarsamtaka Kársness segir fyrirætlanir um gerð stofnstígs fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur um sunnanvert nesið illa ígrundaðar. Verið sé að fórna útivistarperlu fyrir steypu.

Formaður Útivistarsamtaka Kársness segir fyrirætlanir um gerð stofnstígs fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur um sunnanvert nesið illa ígrundaðar. Verið sé að fórna útivistarperlu fyrir steypu.

Hafa áhyggjur af umferðaþunga á stígnum

Stígurinn tengist Fossvogsbrú, fyrstu stóru framkvæmdinni í fyrsta áfanga Borgarlínu, sem tengir vesturhluta Kópavogs og Reykjavík yfir Fossvog. Í nóvember samþykkti bæjarstjórn Kópavogs tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir stíginn, Kársnesstíg, sem kynnt var fyrir íbúum í lok sama mánaðar.

„ Við höfum áhyggjur af því, miðað við þau gögn sem Kópavogsbær hefur sett fram, að þá eru hér áætlanir um að þessi stígur verði einn mest farni eða umferðaþyngsti stígur á höfuðborgarsvæðinu og að á álagstímum þá verði gangandi vegfarendur í víkjandi stöðu, “ segir Sigurborg Arnarsdóttir, formaður Útivistarsamtaka Kársness.

„Og miðað við þetta útivistarsvæði sem þetta er, hérna við friðaða strönd, þá finnst okkur það þurfa að kanna aðra kosti meira eða betur áður en svæði sem þessu er fórnað.“

Besti valkosturinn „illa ígrundaður“

Fimm valkostir voru kynntir og þótti tvöföldun Kársnesstígar meðfram strandlínunni besti kosturinn, að mati ráðgjafa. Gert er ráð fyrir að stígarnir tveir verði samanlagt um 5,5 metrar á breidd á um 1200 metra kafla. Sigurborg segir þennan kost illa ígrundaðan.

„Með þessum umferðarþunga sem er verið að tala um að verði hér er ljóst að hér verður ekkert kyrrlátt útivistarsvæði. Það er mjög þröngt hérna, þannig að það er ekkert auðvelt að aðskilja þessar leiðir. Og þetta mun hafa áhrif á náttúruna og fuglalíf og það er líka það sem við höfum áhyggjur af.“

„Það er í raun og veru verið að fórna hér útivistarperlu fyrir steypu. Það er bara einfaldlega þannig.“

Mikilvægt að skoða aðra kosti

Tillagan hefur verið sett til kynningar í skipulagsgátt Kópavogsbæjar til 23. janúar. Sigurborg segist vilja sjá Kópavogsbæ skoða aðra kosti fyrir stofnstíginn og nefnir í því samhengi Kópavogsbraut, aðalsamgönguæðina í gegnum Kársnes.

„Manni finnst eins og Kópavogur eigi, þetta er hjartað í Kópavogi, að hugsa sig tvisvar um áður en farið er í svona framkvæmdir,“ segir Sigurborg og bendir á að Kópavogur hafi verið fyrsta sveitarfélagið sem hafi unnið eftir sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

„Og það er meðal annars eitt af því sem er talað um við þessa framkvæmd, að það sé verið að styðja við umhverfisvænar samgöngur, sem er frábært. En á sama tíma er verið að ganga á grænt svæði, opið svæði og friðað náttúrusvæði. Manni finnst það ekki alveg passa.“

Heimild: Ruv.is