Hannes Hilmarsson fjárfestir hefur keypt þakíbúð í Skuggahverfinu á 365 milljónir króna. Íbúðin er á tveimur hæðum og með henni fylgja rúmgóðar svalir og þakgarður.
Seljandi íbúðarinnar er félagið Skuggi 4 ehf., sem er í eigu þriggja félaga í eigu jafn margra fjárfesta.
Íbúðin var áður í eigu Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, sem seldi hana við kaup á íbúðum á RÚV-reitnum. Þar áður var íbúðin í eigu Guðmundar Kristjánssonar, sem gjarnan er kenndur við Brim, en athygli vekur að íbúðin er enn fokheld, fimm árum eftir að íbúðaturninn var tilbúinn.
Ólafur H. Guðgeirsson, fasteignasali hjá Eignamiðlun, hafði milligöngu um söluna á umræddri þakíbúð við Vatnsstíg. Hann segir takmarkað framboð af íbúðum í svo háum gæðaflokki hafa áhrif á verðið, líkt og á bestu sjávarlóðum á til dæmis Seltjarnarnesi og Arnarnesi.
„Við erum að verða það efnuð þjóð að það er markaður fyrir svona eignir,“ segir Ólafur í umfjöllun um viðskipti þessi i Morgunblaðinu í dag og bendir á að sérbýli séu að verða takmörkuð gæði á höfuðborgarsvæðinu vegna skipulagsstefnu borgarinnar.
Heimild: Mbl.is