Skagfirðingurinn Hallgrímur Ingi Jónsson hannaði nautgripahús á Daufá sem lokaverkefni í byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík.
Auk þess að vera byggingatæknifræðingur er Hallgrímur Ingi húsasmíðameistari.
„Verkefnið kom þannig til að það var verið að byggja nýtt róbótafjós með uppeldi fyrir kvígur á þessum tíma á Daufá.
Sjálfur kom ég talsvert að hönnun þess fjóss ásamt tengdaforeldrum mínum. Þar sem framkvæmdir við fjósið voru byrjaðar kom strax sú hugmynd að lokaverkefnið mitt myndi snúa að nautgripahúsi, þar sem stefnan var sett á að hafa nautaeldi samhliða mjólkurframleiðslunni,“ segir Hallgrímur Ingi.
Hann segir að hann hafi verið svo heppinn að geta unnið að verkefninu heima í Skagafirði þar sem hann ólst upp en leiðbeinandinn hans, Atli Gunnar Arnórsson, starfar á Verkfræðistofunni Stoð á Sauðárkróki. Atli Gunnar er yfirhönnuður að fjósinu á Daufá.
Að sögn Hallgríms Inga fól lokaverkefnið sjálft að mestu leiti í sér hönnun burðarþols hússins en einnig þurfti ég að ákveða innra skipulag hússins sem hann segir ekkert síður mikilvægan þátt í gripahúsum sem þessum og bætir við að stefnan sé að smíða gripahúsið fljótlega.
Hallgrímur hefur hannað nokkur gripahús, bæði nýbyggingar og viðbyggingar. Hann hefur einnig byggt fjölmörg fjósin þar sem hann vann við smíðar áður en hann fór í tæknifræðina og samhliða náminu.
„Í Skagafirði hefur verið mikil uppbygging á þessu sviði undanfarin ár, bæði í nýbyggingum og viðbyggingum og því hef ég séð talsvert af fjölbreyttum hugmyndum og mismunandi útfærslur á húsum sem þessum.“
Stækkun og aukin tæknivæðing á gripahúsum
Aðspurður um þróun gripahúsa á Íslandi segir hann þróunina síðustu 20 ár hafi fyrst og fremst snúið að stækkun og tæknivæðingu.
„Með aukinni róbótavæðingu hafa mjög mörg kúabúin stækkað, það er að segja kúnum fjölgað þar sem minnsta eining í róbótum er um 60 kýr.
Með reglugerðinni um velferð nautgripa frá 2014 jukust einnig kröfur um aðbúnað og velferð sem að sjálfsögðu verður að fara eftir.
Básar hafa bæði lengst og breikkað undanfarin ár, stíustærð aukist, gönguleiðir kúa breikkað svo fátt eitt sé nefnt. Í dag er líka skylda að hafa sérstakt velferðarsvæði í nýjum fjósum ásamt burðarstíum sem og aðstöðu til að koma sláturgripum á gripabíla,“ segir Hallgrímur Ingi.
Hann segir að eftir að lausagangan jókst þá sé mikið horft á hjarðhegðun dýranna og eru margar rannsóknir stundaðar erlendis í dag sem snúa að velferð og atferli kúnna.
„Bændur eru þó missammála um hvað sé best og má finna lausagöngufjós á Íslandi með allt frá algjörri stýringu á umferð kúnna yfir í algjörlega frjálsan aðgang kúnna að öllum svæðunum í fjósinu.
Mismunandi reynsla, hugsun, tilhögun vinnu, fóðurkerfi og aðrir þættir ráða gjarnan því hvað bændur velja,“ segir Hallgrímur Ingi.
Hann segir fæsta bændur sammála um hvernig draumafjósið lítur út
„Á meðan einn vill spara vinnu við gjafir, vill sá næsti spara vinnu við að sækja kýr í róbót. Einn bóndi vill stálgrindarfjós á meðan sá næsti vill uppsteypt fjós og sá þriðji límtrés fjós.
Persónulegur smekkur manna er mjög mismunandi og því verða fjósin ekki öll eins. Aðstæður á bæjunum eru einnig mismunandi, það er hversu margir koma að rekstri búsins ásamt því hvað fjármagnsmöguleikar eru miklir þegar kemur að breytingu á fjósi eða nýbyggingum,“ segir Hallgrímur Ingi.
Hann segir þessir þættir skipti miklu máli þegar bændur fari í breytingar á fjósum.
„Þar sem byggt er við eldri fjós þarf að hanna viðbyggingu út frá eldra fjósi og þar sem eldri fjósin eru ekki öll eins verða viðbyggingarnar sjaldnast eins. Hver og einn hefur sínar skoðanir á því hvernig sitt fjós á að líta út.
Í dag fara þó flestir, ef ekki allir bændur í lausagöngu ef breyta á fjósunum en það stafar af velferðarreglugerð, þrátt fyrir að róbót verði ekkert endilega fyrir valinu.
Töluvert er um að bændur velji mjaltargryfju í stað róbóts, en lausagönguhugsunin er sú sama.”
Reglur hertar hvað varðar velferð dýra
Aðspurður hvort breytingar hafi orðið á hönnun gripahúsa segir hann þær að mestu snúa að breytingum á reglugerð um velferð dýra.
„Undanfarin ár hafa reglur verið hertar hvað varðar velferð dýra. Kröfur eru um lausagöngu, lengri og breiðari bása, stærri stíur fyrir kálfa og uppeldi, velferðarými, aðstöðu dýralækna og sæðingamanna ásamt aðgengi gripaflutningamanna.
Kröfur um loftræstingu og hljóðvist hafa einnig aukist. Velferðarhugsin hefur aukist og vellíðan gripanna er höfð að leiðarljósi,“ segir Hallgrímur.
Hann segir að innréttingarnar séu margar hverjar hannaðar til að þær séu sem þægilegastar fyrir gripina, dýnurnar eru orðnar mýkri, átgrindur hafa stækkað og notkun velferðargólfbita hefur aukist.
Þá þurfa brynningarker/skálar að vera ákveðið margar en best er að kýrnar þurfi að labba sem styst til að sækja sér vatn.
„Flestir bændur kjósa í dag að bæta við klórbursta fyrir kýrnar en er það þó engin skylda. Flórgoðar eru einnig orðir gífurlega vinsælir og spara mikla vinnu fyrir bóndann. Sífellt er verið að bæta gæði þessara þátta og tel ég að það eigi eftir að halda áfram næstu árin.
Margir telja að básarnir eigi eftir að stækka enn frekar og uppeldisstíurnar sömuleiðis. Reglugerð nautgripa snýr að velferð allra nautgripa þrátt fyrir að kýrnar séu veigamestar í henni og er það ekki ósennilegt að reglugerð um uppeldi nauta eigi eftir að breytast og aukast á næstu árum,” segir Hallgrímur.
Heimild: Frettablaðið.is