Langtímaspá um íbúðaþörf til ársins 2030 helst hins vegar óbreytt og samkvæmt henni þarf að byggja 27.000 nýjar íbúðir, eða 2.950 íbúðir á ári.
„Það má rekja til þess að fleiri íbúðir komu á markað í fyrra en gert var ráð fyrir og sömuleiðis er útlit fyrir að fleiri íbúðir komi á næstu tveim árum en upphaflega var talið,“ segir í greiningunni.
Búast við að þörfin verði uppfyllt 2030
Hagdeildin gerir ráð fyrir að íbúðaþörfin verði uppfyllt að fullu árið 2030 og að það takist betur að vinna á þörfinni í ár og á næsta ári en áður var talið.
Samkvæmt greiningu HMS verða byggðar rúmlega þrjú þúsund íbúðir hér á landi á þessu ári og því næsta, sem ætti að uppfylla þörfina fyrir nýjar íbúðir þau árin.
Mannfjöldaspá Hagstofunnar gerir hins vegar ráð fyrir meiri fjölgun fólks á næstu árum, 2021-2025, en á árunum 2026-2030.
„Það þyrfti því jafnvel að byggja fleiri íbúðir á næstu árum en spáin gerir ráð fyrir til þess að saxa á fyrirséða óuppfyllta íbúðaþörf,“ segir í greiningunni.
Lóðir þurfa að standa til boða
Hagdeild HMS metur íbúðauppbyggingu til næstu ára í ágætum farvegi en telur að vel megi gefa í og byggja umfram þær 3.000 íbúðir sem spáð er að komi á markað á næstu tveimur árum til að mæta uppsafnaðri þörf fyrir íbúðir fyrr. Til þess þurfi að sporna gegn lóðaskorti:
„Til þess að það megi verða þá þurfa byggingaraðilar að geta byggt meira og það þýðir að lóðir þurfa að standa til boða. Umræðan um lóðaskort hefur risið reglulega og hann sagður helst standa í vegi fyrir íbúðauppbyggingu.
Þessi uppfærða greining ætti að vera sveitarfélögum hvatning til að vera með tilbúnar lóðir til úthlutunar svo hægt sé að bæta í og byggja meira. Enda hefur þörf fyrir íbúðir sjaldan verið meiri en nú.
Þessi mikla óuppfyllta þörf hefur verið viðvarandi frá árinu 2016 þrátt fyrir að það hafi verið eitt mesta uppbyggingarskeið í sögu landsins,“ segir í greiningunni.
Heimild: Ruv.is