Umtalsverður samdráttur er í íbúðarbyggingu á Norðurlandi og sérstaklega á Akureyri. Þar eru verktakafyrirtæki að verða lóðalaus og segist framkvæmdastjóri SS Byggir aldrei hafa kynnst öðru eins á þeim fjóru áratugum sem fyrirtækið hafi verið til. Pólitíkin geti ekki sent allt í nefndir og starfshópa.
Í nýrri talningu Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu á Akureyri kemur í ljós að 149 íbúðir eru í byggingu, þar af 123 í fjölbýli.
Á undanförnum 12 mánuðum hefur dregið úr umsvifum í byggingu íbúðarhúsnæðis þar á bæ og segir í skýrslu um málið að mikill lóðaskortur hamli uppbyggingu íbúða á Akureyri.
Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri SS Byggir, segir að hann hafi séð í hvað stefndi fyrir um tveimur árum en talað fyrir daufum eyrum stjórnmálamanna í bænum.
„Við erum að fara að steypa okkar síðustu steypu eftir rúman mánuð, eftir það verðum við lóðalausir.
Það er engin fjölbýlishúsalóð laus á Akureyri og ég held að það hafi verið tvær lausar einbýlishúsalóðir í síðustu viku. Svona er nú ástandið og mér skilst að flestir verktakar séu að verða lóðalausir,“ segir Sigurður.
SS Byggir var stofnað 1978 og er í hópi stærstu byggingafyrirtækja norðan heiða. Sigurður segir að um 90 manns séu í vinnu hjá sér og til að bregðast við lóðaskortinum réðst fyrirtækið í uppbyggingu Hálanda í Hlíðarfjalli.
„Þau svör sem ég fæ frá bænum eru að ný hverfi séu í hönnun. Við höfum verið að ýta á hlutina í að verða annað ár því við sáum í hvað stefndi. Það er meira að segja verið að spyrja okkur, hver kaupir þessar íbúðir?
Mér finnst það ekki rétta spurningin. Íbúðir seljast. Við höfum verið að skila af okkur rúmlega einni íbúð á viku og erum að verða lóðalausir núna. Við erum, með undirverktökum, um 90 manns í vinnu og það er eins og það skipti engu máli.“
Fækkað á milli ára
Þótt samdrátturinn sé mestur á Akureyri er einnig verulegur samdráttur í fjölda íbúða í byggingu. Í þeim sveitarfélögum þar sem talningin fór fram eru nú 4.610 íbúðir í byggingu og hefur þeim fækkað um 1.131 á milli ára. Hefur ekki mælst meiri fækkun íbúða í byggingu síðan SI hófu íbúðatalningu á vormánuðum fyrir áratug.
Samdráttur íbúða í byggingu á landinu mælist um 20 prósent frá talningu SI á sama tíma 2020. Mestur er samdrátturinn á íbúðum sem eru á byggingarstigum 4 og 5, eða um 23 prósent á milli ára. Um er að ræða íbúðir sem eru orðnar fokheldar og að því að vera tilbúnar til innréttinga.
Boðar þetta að veruleg fækkun gæti orðið á íbúðum á síðustu byggingarstigum á næstunni, samkvæmt skýrslu SI.
Sigurður er ekki hrifinn af nútímapólitík þar sem allt er sett í nefndir og starfshópa og jafnvel undirbúningsfélög til að undirbúa ákvörðun.
„Það liggur við að ef einhver tekur ákvörðun sé viðkomandi skammaður. Það þarf allt að fara í gegnum fjórar eða fimm nefndir en við rekum ekki Ísland eða sveitarfélög á nefndum.
Sumir bæjarfulltrúar, ég tek það fram sumir, halda að við séum með frekju og að troðast með því að ýta eftir lóðum, en ég veit að ef við fáum lóð þá tekur um 10 mánuði að fá allar teikningar samþykktar og annað slíkt inn í kerfið. Við erum 43 ára fyrirtæki og þetta hefur aldrei verið svona áður.“
Hann segir að verktakar geti lítið annað en að líta í kringum sig og skoða sveitirnar í kring. Sigurður segir að hann hafi áhyggjur af því að önnur sveitarfélög taki fram úr Akureyri í fólksfjölda.
Það sýni ákveðna stefnu, já eða skort á stefnu. „Akureyri var næstfjölmennasta sveitarfélagið í kringum aldamótin en verður komið í sjötta sæti áður en langt um líður. Það segir ýmislegt og sýnir að eitthvað er að.“
Heimild: Frettabladid.is