Home Fréttir Í fréttum BSO víkur fyrir nýju miðbæjarskipulagi á Akureyri

BSO víkur fyrir nýju miðbæjarskipulagi á Akureyri

190
0
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Sextíu og fimm ára gömul leigubílastöð BSO í miðbæ Akureyrar þarf að víkja fyrir nýju miðbæjarskipulagi. Bílstjórarnir vilja vera áfram í miðbænum en óvíst er hvað verður um þetta sögufræga hús.

Hús BSO var tekið í notkun 16. febrúar árið 1956 og þar hefur stöðin því verið í 65 ár. Húsið var sérstaklega byggt sem leigubílastöð og er fyrir löngu orðið eitt af helstu kennileitum Akureyrar.

<>

Ekki ánægðir með að þurfa að fara

Samkvæmt nýju miðbæjarskipulagi þarf húsið að víkja og Bifreiðastöð Oddeyrar hefur frest til áramóta til að flytja starfsemina annað. „Við erum svosem ekkert ánægðir með það að fara héðan. Þetta er góð staðsetning á miðbæjarsvæðinu,“ segir Gylfi Ásmundsson, stjórnarformaður BSO.

„Hefur ykkur verið boðin einhver önnur staðsetning eða önnur aðstaða?“

„Nei en við erum með augun opin fyrir því. Vonandi finnum við einhverja lausn á þessu.“ Hann segir ekkert farið að hugsa um hvað verður um húsið. Hvort það hverfi alveg eða verði endurbyggt á nýjum stað.

Leigubílastöð BSO á horni Glerárgötu og Strandgötu.
Mynd: RÚV – Björgvin Kolbeinsson

Varðveislugildið fólgið í menningarsögu hússins

Hanna Rósa Sveinsdóttir, sérfræðingur á Minjasafninu á Akureyri, telur eftirsjá af húsinu. Það hafi verið stór hluti af bæjarmynd Akureyrar og bæjarbragnum. „Varðveislugildi hússins má segja að sé fyrst og fremst fólgið í menningarsögu þess og tengsl þess við sögu bæjarins. Bæði atvinnusöguna og þeirra bílstjóra sem voru hér og voru hér í tugatali þegar mest var. Og svo náttúrulega bara hluti af bæjarbragnum.“

Óvíst hvort rétt sé að endurreisa húsið annarsstaðar

Og þótt húsið sé ekki það gamalt að það falli undir minjalög hafi það ákveðið minjagildi. Óvíst sé samt hvort það eitt réttlæti að flytja húsið af staðnum og endurreisa það annars staðar. „Ég myndi segja kannski segja að mesta gildi hússins er fólgið meðal annars í þessarri staðsetningu hér í hjarta miðbæjarins,“ segir Hanna Rósa.

Vilja vera á miðbæjarsvæðinu áfram

Gylfi segir gott að vinna í þessu húsi og einhvers staðar í miðbænum vilji þau vera áfram. „Já við viljum helst vera á miðbæjarsvæðinu, en við vitum það að við erum fyrir miðbæjarskipulaginu. Og við vonum bara að við náum farsælli lendingu við Akureyrarbæ í því máli.“

Heimild: Ruv.is