Bæjarstjórn sveitarfélagsins Voga hafnaði í gær að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.
Frá þessu greinir Landsnet í tilkynningu og bendir á að áður hafa Reykjanesbær, Hafnarfjörður og Grindavík samþykkt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi með atkvæðum allra bæjarfulltrúa sveitarfélagana þriggja.
Talar um vonbrigði fyrir hin sveitarfélögin
Í tilkynningunni er afgreiðsla sveitarfélagsins sögð vonbrigði, meðal annars í ljósi umræðu um náttúruvá og afhendingaröryggi raforku á svæðinu.
Haft er eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni forstjóra Landsnets að staðan sem félagið standi frammi fyrir sé mjög erfið. Landsnet hafi í mörg ár talað fyrir mikilvægi þess að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum.
„Þessi niðurstaða Sveitarfélagsins Voga er vonbrigði, ekki bara fyrir okkur heldur einnig fyrir hin sveitarfélögin á línuleiðinni sem nú þegar hafa veitt leyfi.
Ef ákvörðunin stendur óbreytt er í uppnámi ein mikilvægasta framkvæmdin í flutningskerfi raforku á svæði sem stjórnvöld hafa sett í forgang,“ segir Guðmundur.
Afgreiðslan eigi sér ekki fordæmi
„Afgreiðsla framkvæmdaleyfis með höfnun eins og í þessu tilviki á sér ekki fordæmi og ekki ljóst hver séu næstu skref en vinna við að meta það er nú þegar hafin. Verkefnið er stopp á meðan og Suðurnesin búa áfram við óbreytt ástand.
Í ljósi þess að jarðhræringar og eldgos gætu staðið yfir í lengri tíma er það ekki ásættanlegt fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu sem er miður.“
Segir enn fremur í tilkynningunni að Suðurnesjalína 2 hafi lengi verið í undirbúningi og verið stefnt að því að hefja framkvæmdir árið 2020.
„Umsóknin um framkvæmdaleyfið byggði á samþykktri kerfisáætlun og ítarlegum undirbúningi þar sem lagt var mat á umhverfisáhrif ólíkra valkosta og hagsmunaaðilum tryggð aðkoma í gegnum vandað samráðsferli,“ segir þar.
Jarðstrengskostur feli í sér viðbótarkostnað
„Loftlínuvalkosturinn sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir tryggir best afhendingaröryggi raforku, af þeim kostum sem voru skoðaðir. R
annsóknir við undirbúning verkefnisins sýndu jafnframt að svæðið er útsett fyrir jarðskjálftum og eldgosum, sem gerir það að verkum að jarðstrengskostur er ekki góður á þessu landsvæði.
Sá jarðstrengsvalkostur sem Sveitarfélagið Vogar leggur til felur í sér umtalsverðan viðbótarkostnað og minna öryggi.
Þessi valkostur fellur heldur ekki að stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í flutningskerfinu og er ekki samræmi við raforkulög. Þar af leiðandi getur Landsnet ekki lagt hann til.“
Heimild: Mbl.is