Home Fréttir Í fréttum 10 milljarða miðbær rís á Selfossi

10 milljarða miðbær rís á Selfossi

392
0
Nýr miðbær rís nú á Selfossi. Aðsend mynd

Alls er stefnt að því að byggja 30 þúsund fermetra af byggingum í nýjum miðbæ á Selfossi.

<>

Nýr miðbær á Selfossi mun opna fyrir almenningi í sumar. Í fyrsta áfanga verkefnisins rísa þrettán byggingar sem telja alls um 5.200 fermetra.

Þegar miðbærinn hefur risið að fullu er stefnt að byggingum sem telja hátt í 30 þúsund fermetra, en áætlað er að kostnaður við framkvæmdirnar sé 10-12 milljarðar króna. Verkefnið er eitt stærsta fasteignaþróunarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins í seinni tíð.

Leó Árnason

Leó Árnason, stjórnarformaður Sigtúns þróunarfélags, segir að mikill áhugi hafi verið meðal rekstraraðila á rými í nýja miðbænum. „Það er út af því að verkefnið er óvenjulegt,“ segir Leó.

Þar verði fjölbreytt flóra verslana, veitingastaða og ýmissar þjónustu, auk íbúða og skrifstofuhúsnæðis. Mathöll og skyrsafn í gamla mjólkurbúinu Miðbærinn er byggður á sögulegum fyrirmyndum eldri húsa hér á landi. Framkvæmdir hófust árið 2018 eftir íbúakosningu þar sem meirihluti íbúa samþykkti deiluskipulagsbreytingar að nýja miðbænum

„Við erum að byggja lágstemmt og í klassískum stíll. Ég hef fulla trú á því að þessi hús verði mikið aðdráttarafl fyrir þennan miðbæ. Þetta er einstök nálgun og öðruvísi en hefur verið reynt með aðra nýja miðbæi á Íslandi og þó víðar væri leitað,“ segir Leó.

Eitt þekktasta húsið sem verið er að endurreisa er gamla mjólkurbú Flóamanna sem Guðjón Samúelsson, fyrrverandi húsameistari ríkisins, teiknaði og stóð á árunum 1929-1956. „Í gamla mjólkurbúinu verður mathöll með átta veitingastöðum og bar með góðu bjórúrvali.

Í kjallaranum afar metnaðarfull sýning um skyr ásamt skyrsmökkun.“ Leó segist ekki hafa áhyggjur af því að færri erlendir ferðamenn heimsæki landið í sumar en vonir stóðu. „Við erum fyrst og fremst að einblína á að byggja þennan miðbæ fyrir heimamenn og íslenska gesti,“ segir Leó.

„Þannig verður um leið skemmtilegra fyrir ferðamenn að vera einnig innan um heimamenn þegar þeir heimsækja bæinn.“

Þarf aðdráttarafl þegar nýja brúin opnar

Leó segist þess fullviss að nýi miðbærinn verði mikið aðdráttarafl á sama tíma og breytingar eru að eiga sér stað á Selfossi. Þjóðvegur 1 mun færast framhjá bænum þegar ný brú yfir Ölfusá verður opnuð á næstu árum.

„Í þeirri framkvæmd felast bæði ógn og tækifæri. Við þurfum að gera vel þannig að gestir fari gömlu leiðina og bærinn verði áningarstaður, bæði fyrir erlenda ferðamenn og íslenska gesti,“ segir Leó. Vilji sé til að byggja upp Austurveg, aðalgötu bæjarins, samhliða því að umferðarþunginn færist annað.

„Austurvegurinn getur klárlega orðið falleg bæjargata. Gatan er breið og býður upp á mjög spennandi og fjölbreytta þróunarmöguleika þegar þungaumferðin í gegnum bæinn minnkar,“ segir Leó.

Vilja byggja fyrir aftan Landsbankahúsið

Sem hluti af þeirri vegferð keypti Sigtún þróunarfélag höfuðstöðvar Landsbankans á Selfossi, sem standa við Austurveg, undir lok síðasta árs.

Húsið er sögufrægt, en það var byggt á árunum 1949-1953 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, í anda höfuðstöðva Landsbankans við Aðalstræti í Reykjavík.

Leó bendir á að fyrir aftan húsið standi 7.300 fermetra lóð. Það býður upp á einstaka möguleika. „Við erum að horfa til þess að útvíkka miðbæjarsvæðið.“

Heimild: Vb.is