Áætlaðar verklegar framkvæmdir hins opinbera á þessu ári nema samtals um 139 milljörðum, en það er um 7,4 milljörðum meira en áætlað var á síðasta ári.
Þetta sést á tölum sem kynntar voru á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins sem fram fer núna.
Boðaðar framkvæmdir eru um 4,5% af væntri landsframleiðslu, sem er viðlíka og á síðasta ári þegar framkvæmdirnar námu 4,6% af landsframleiðslu.
Framkvæmdunum sem um ræðir er ætlað að efla innviði hagkerfisins, en meðal þeirra sem kynna framkvæmdir á þinginu eru Reykjavíkurborg, Vegagerðin, Framkvæmdasýsla ríkisins, Isavia, Landsnet, Veitur og Nýi Landspítalinn.
Reykjavíkurborg boðar umfangsmestu framkvæmdirnar, eða fyrir samtals 28,6 milljarða. Er það talsverð aukning milli ára, en í fyrra voru boðaðar framkvæmdir upp á 19,6 milljarða.
Þá boðar Vegagerðin framkvæmdir fyrir 27,6 milljarða, en það er samdráttur úr 38,7 milljörðum í fyrra. Það segir þó ekki alla söguna, því framkvæmdir Vegagerðarinnar á síðustu ári reyndust 7,6 milljörðum minna en boðað hafði verið, eða 31 milljarður.
Samtals höfðu verið boðaðar framkvæmdir upp á um 131,9 milljarða á Útboðsþingi í fyrra, en raunin var framkvæmdir upp á 29% lægri upphæð. Stærstu bitarnir þar voru Vegagerðin og Isavia, en Isavia hafði boðað framkvæmdir upp á 21 milljarð á árinu, en enduðu í 200 milljónum. Hafði heimsfaraldurinn þar augljóslega mikil áhrif.