Samkvæmt skammtímavísi hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur framboð af húsnæði dregist mest saman á höfuðborgarsvæðinu. Frá því í lok maí á þessu ári hefur framboð af húsnæði þar dregist saman um 41 prósent, um 36 prósent á Austurlandi og um 29 prósent á Vesturlandi.
Á meðan framboðið dregst saman er eftirspurn í hæstu hæðum og fjöldi kaupsamninga ekki mælst eins mikill og í september á þessu ári frá því árið 2007. Því hefur húsnæðisverð hækkað um að meðaltali 5 prósent frá því í maí og meðalsölutími eigna dregist verulega saman.
Hraður samdráttur í byggingariðnaði
Í samantektinni segir að blikur séu á lofti í byggingariðnaðinum og að þar hafi orðið hraður samdráttur að undanförnu. Í upphafi síðasta árs hafi tekið að draga úr veltu fyrirtækja í byggingarstarfsemi:
„Miðað við síðustu tölur, sem ná yfir júlí-ágúst 2020, hafði árstíðaleiðrétt velta dregist saman um 15% frá byrjun árs 2019. Enn fremur dróst fjöldi starfandi í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð saman um 10% frá ágúst 2019 til ágúst 2020.“
Þó segir einnig að fjöldi starfandi fólks í byggingariðnaði sé meiri nú en hann hefur verið mestallan síðasta áratug og umsvif í byggingariðnaði séu því enn sögulega mikil.
Enn meiri samdráttur framundan
Samdrátturinn er mestur á fyrstu byggingarstigum, sem þýðir að fokheldum byggingum hafi fækkað meira en byggingum sem eru tilbúnar til innréttingar eða tilbúnar til að flytja inn í.
Því má búast við enn meiri samdrætti í framboði af tilbúnum íbúðum á næstunni. Fokheldum byggingum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað um 41 prósent milli ára og slíkur samdráttur hefur ekki orðið á því svæði síðan 2010-2011.
Heimild: Ruv.is