Í fjárlagafrumvarpi voru framlög til ofanflóðavarna meira en tvöfölduð eftir að mjög var gagnrýnt að tekjur af ofanflóðagjaldi hefðu um langt árabil ekki verið nýttar til framkvæmda.
Hafsteinn Pálsson, starfsmaður ofanflóðasjóðs, gerir ráð fyrir að garðarnir þrír á Seyðisfirði verði boðnir út í heilu lagi. Af því sé talsvert hagræði og líklega verði byrjað á ysta garðinum.
Einnig er unnið að hönnun fjórða áfanga snjóflóðavarna í Neskaupstað en óvíst hvenær ráðist verður í framkvæmdir.
Ofanflóðasjóður er með fleiri verkefni á dagskrá á næsta ári svo sem upptakastoðvirki á Siglufirði, í og við Lambeyrará á Eskifirði og þá á að ljúka þriðja áfanga í Neskaupstað undir Urðarbotnum.
Framkvæmdir hófust við tvo garða á Patreksfirði á þessu ári og lýkur að óbreyttu árið 2023.
Að auki er fjöldi ólokinna verkefna í undirbúningi: á Patreksfirði, Bíldudal, Hnífsdal, Eskifirði og í sunnanverðum Seyðisfirði svo eitthvað sé nefnt.
Heimild: Ruv.is