Húsið mun breyta miklu fyrir Alþingi því þar með verður öll starfsemi þess komin á einn stað, fyrir utan þingfundina sjálfa.
Í gær var skrifað undir samning við verktaka um þriðja áfanga byggingarinnar.
„Stærsta atriðið og það jákvæðasta er það að þessi framkvæmd mun þegar hún verður tekin í notkun spara Alþingi um 200 milljónir króna á ári sem hefur verið greidd í leigukostnað undanfarin ár undir þá aðstöðu sem nú verður í þessu nýja húsi,“ sagði Þorsteinn á Alþingi í gær.
„Og starfsemi Alþingis þar með öll samtengd og ég þykist vita það að þetta nýja hús verður Alþingi til mikilla heilla.“
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hóf þingfundinn í gær á að óska þingmönnum og starfsfólki Alþingis til hamingju með daginn.
Tilefnið er undirritun samnings við ÞG verktaka um þriðja áfanga byggingar fimm hæða skrifstofuhúss á Alþingisreit.
Óskaði Steingrímur ekki síst þeim til hamingju sem ættu eftir að nota húsið en eins og fram hefur komið ætlar Steingrímur að hætta á þingi við lok þessa kjörtímabils á næsta ári en taka á húsið í notkun á fyrri hluta ársins 2023.
Samninginn undirrituðu þau Steingrímur, Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis og Þorvaldur Gissurarson fyrir hönd verktaka.
Heimild: Ruv.is