Mjög lág tilboð bárust í dýpkunarframkvæmdir á Viðeyjarsundi og er ljóst að Faxaflóahafnir spara sér hundruð milljóna króna með því að semja við lægstbjóðanda. Er þá miðað við kostnaðaráætlun verksins.
Verkið var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu og voru tilboð opnuð hjá Faxaflóahöfnum 22. október sl. Alls bárust átta tilboð, sex frá erlendum fyrirtækjum og tvö frá íslenskum.
Lægsta tilboðið var frá Jan De Nul, 663.487 evrur, eða 108,8 milljónir íslenskra króna á viðmiðunargengi. Var tilboðið 23,8% af áætluðum verktakakostnaði sem var um 2,8 milljónir evra eða 457,8 milljónir. Hér munar um 349 milljónum á kostnaðaráætlun og lægsta boði.
Næstlægsta tilboðið var frá Rhode Nielsen a/s, 151,5 milljónir eða 33,1% af kostnaðaráætlun.
Lægsta íslenska tilboðið átti Sjótækni ehf., 267,9 milljónir, sem var 59% af kostnaðaráætlun. Björgun ehf. bauðst til að vinna verkið fyrir 526 milljónir. Langhæsta tilboðið átti Rederiet Höj a/s, 981 milljón.
Samkvæmt upplýsingum Ingu Rutar Hjaltadóttur, forstöðumanns tæknideildar Faxaflóahafna, er nú unnið að því að ganga frá samningi við lægstbjóðanda, Jan De Nul.
Fyrirtækið mun nota öflugt dýpkunarskip, Taccola, sem „sýgur“ efnið upp af botninum og um borð í skipið. Skipið siglir með efnið á losunarsvæðið og losar það niður um skrokk skipsins. Taccola er væntanlegt til Reykjavíkur í dag en framkvæmdin hefst ekki fyrr en upp úr 20. nóvember.
Heimild: Mbl.is