Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Þriggja milljarða heimili með garði í miðjunni

Þriggja milljarða heimili með garði í miðjunni

407
0
Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi eru vel á veg komnar. Húsið verður hringlaga, með garði í miðjunni.
Áætlaður kostnaður er þrír milljarðar króna. Fjögur önnur hjúkrunarheimili á landsbyggðinni eru í bígerð.

Mikil vöntun hefur verið á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða hér á landi. Til að bregðast við því er nú verið að fjölga þeim, meðal annars á Selfossi, þar sem nýtt 60 íbúða heimili er í byggingu.

<>

„Hérna hefur þörfin verið til staðar í langan tíma og það er verið að fullnægja henni. Það er ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins og sveitarfélagsins að fara í þessa framkvæmd,“ segir Þröstur V. Söring, sviðsstjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.

Byggingin verður um 4.000 fermetrar og kostnaður er áætlaður um þrír milljarðar króna. Byggingin er nokkuð óvenjuleg, enda hringlaga.

„Kosturinn við þetta form og þessa lögun er að hérna í miðjunni verður garður þannig að þeir sem hér dvelja eru minna háðir veðri, varðandi útivist og þess háttar. Allir íbúar hér munu njóta aukinna lífsgæða í því formi að þeir verða með sér svalir og aðgengi út í garðinn.“

Flytja inn á næsta ári

Þröstur segir að Framkvæmdasýslan vinni nú einnig að byggingu hjúkrunarheimila á fjórum öðrum stöðum á landinu; á Patreksfirði, Höfn í Hornafirði, Húsavík og í Stykkishólmi.

„Og það sem við erum að vinna að hjá Framkvæmdasýslunni er að stytta ferlið frá því ákvörðun um byggingu hjúkrunarheimilisins er tekin og þangað til íbúar geta flutt inn. Hérna geta íbúar flutt á næsta ári. Við ætlum að klára uppsteypu fyrir áramót og svo geta íbúar vonandi flutt inn næsta haust eða fyrir áramót á næsta ári.“

Er komið á hreint hver mun reka heimilið?

„Nei það er það nú ekki en ég á von á því að það finnist út úr því fljótlega. Það eru margir góðir aðilar sem væru tilbúnir til þess,“ segir Þröstur.

Heimild: Ruv.is