Byggðarráð Skagafjarðar skorar á samgönguráðherra að tryggja að undirbúningi jarðganga á milli Fljóta og Siglufjarðar verði lokið sem fyrst.
Lögreglustjóri á Norðurlandi vestra og varaformaður byggðarráðs segir framkvæmdina ekki þola lengri bið.
Mikil hætta á skriðuföllum og snjóflóðum
Á undanförnum árum hefur Sveitarfélagið Skagafjörður reglulega vakið athygli á ástandi Siglufjarðarvegar frá Fljótum og að Siglufirði.
Í nýrri bókun byggðarráðs segir að lífsnauðsynlegt sé að göng um svæðið komist til framkvæmda.
Siglufjarðarvegur um Almenninga var tekinn í notkun árið 1967 og tengir meðal annars Fljótin og Siglufjörð í gegnum Strákagöng.
Í 100 metra hárri hlíðinni fyrir neðan veginn, þar sem hann liggur vestan ganganna, eru skörð sem ná nærri alveg upp að vegkanti. Þar er hætta á skriðuföllum, grjóthruni og snjóflóðum á veturna.
Öllum ljóst að vegurinn er ekki framtíðarvegur
Stefán Vagn Stefánsson er yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra og varaformaður byggðarráðs. „Ástand vegarins hefur náttúrlega verið í fjölmiðlum og það er öllum ljóst í hvað stefnir.
Það er allaveganna okkar sýn á málið að það veri að grípa til einhverra aðgerða varðandi þennan veg.
Öllum hefur verið ljóst mjög lengi að þessi vegur er ekki framtíðarvegur. Nú er náttúrlega komið í ljós að hann er mjög óstöðugur og raun og veru spurning um það hvenær stærri partar fara þarna af honum og hann verður í raun og veru ófær,” segir Stefán.
Ertu bjartsýnn á að það fari að draga til tíðinda í þessum málum á næstu árum?
„Ég held að menn séu bara komnir upp við vegg í þessu máli núna, menn hafa verið að ýta þessu á undan sér án þess að taka neinar stórkostlegar ákvarðanir hvað þetta varðar en núna held ég og við í sveitarstjórn að lengra verði ekki komist í því.”
Heimild: Ruv.is