Unnið er að dýpkun Sandgerðishafnar með nýjum og óvenjulegum hætti. Fyrst var grjóti og möl sturtað í sjóinn og grafa notuð til að búa til athafnasvæði.
Eru nú tvær öflugar vélar við vinnu á svæðinu. Önnur rífur efnið upp og hin mokar því til.
Verið er að dýpka höfnina framan við löndunarkrana við Norðurgarð.
Dýptin við efstu löndunarkranana verður 2,5 metrar en alls eru 6 löndunarkranar á bryggjunni og flotbryggjur fyrir 70 litla báta. Svæðið sem unnið er á er um 23 metrar að breidd.
Stór vörubíll tekur við efninu og flytur á urðunarstað. Ellert Skúlason ehf. er verktaki við dýpkunarframkvæmdirnar.
Stefnt er að því að verkinu ljúki í nóvember.
Heimild: Mbl.is