Gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Borealis hefur verið í umfangsmikilli uppbyggingu á síðustu misserum og lauk félagið framkvæmdum á síðasta ári á Blönduósi og á Fitjum í Reykjanesbæ. Samkvæmt samtali Morgunblaðsins við Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, þá reisti félagið sex gagnaversbyggingar á Blönduósi auk skrifstofu- og aðstöðuhúsnæðis, en á meðfylgjandi mynd má virða fyrir sér uppbygginguna.
Samhliða uppbyggingunni lauk félagið jafnframt á síðasta ári við um tveggja milljarða króna fjármögnun vegna hennar. Björn segir að fjármögnunin sé jafnframt liður í áframhaldandi vexti á báðum þeim stöðum þar sem félagið er með starfsemi, og hafi að mestu leyti farið fram í gegnum erlenda fjárfesta.
Etix Everywhere Borealis er hluti af alþjóðlega gagnaversfyrirtækinu Etix Everywhere sem hannar, byggir og rekur gagnaver í fremstu röð í heiminum.
Næsti áfangi hafinn
Björn segir að undirbúningur að næsta áfanga á Blönduósi sé nú þegar hafinn og fyrsta fasa í þeirri uppbyggingu sé nú að ljúka. Þar verði lögð áhersla á gagnageymslu og ofurtölvurekstur. Hann segir að bæjarfélagið sé ákjósanlegur staður fyrir gagnaver. Svæðið búi við örugga afhendingu orku, jarðfræðileg skilyrði séu góð og hættan á umhverfisvá mjög lítil.
Fyrstir á tveimur stöðum
Í kynningarmyndbandi fyrir gagnaverið má sjá að það, sem tók aðeins fjóra mánuði að reisa frá því að fyrsta skóflustunga var tekin og þar til það var fullreist, er m.a. búið fullkomnu kælikerfi og sömuleiðis vönduðu eftirlitskerfi allan sólarhringinn. Þá kemur fram í myndbandinu að í gagnaverinu séu staðsettir tuttugu og fimm þúsund miðlarar (e. Servers).
Björn segir að Etix Everywhere Borealis hafi á síðasta ári orðið fyrsti stórnotandinn sem tengdist flutningskerfi Landsnets á tveimur stöðum og hafi einnig gert orkukaupasamninga við Landsvirkjun, Orku náttúrunnar og HS Orku.
Etix Everywhere var nýlega keypt af Vantage Data Centers sem er leiðandi fyrirtæki í gagnaverslausnum fyrir vel þekkt stór alþjóðleg tölvufyrirtæki (e. Hyperscalers), skýjaþjónustuaðila og alþjóðleg stórfyrirtæki.
Vantage áformar í framhaldinu að fjárfesta fyrir um tvo milljarða Bandaríkjadala í verkefnum í Evrópu.
Heimild: Mbl.is