Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem dreymir um að byggja skjólvegg við pallinn sinn en íbúar blokkarinnar vilja ekki leyfa það. Hver er hennar réttur?
Góðan dag,
nú hefur mig lengi langað að setja upp skjólvegg í kringum pallinn minn. Ég er í fjölbýli og við höfum tvær íbúðir á jarðhæð, ég er í annarri þeirra. Nú hef ég lesið mér til um reglur og lög, en finnst ég lesa úr því að ég megi en megi samt ekki.
2/10 íbúðum neituðu beiðni minni. Það er skjólveggur á milli íbúðanna á jarðhæðinni, skjólveggir yrðu eins. Það er mikið meira en 180 cm í lóðarmörk, jarðíbúð er að aftan í garði og mun ekki breyta útliti blokkarinnar að framan. Samkvæmt eignarsamningi á ég partinn á lóðinni hér bak við sem liggur upp við íbúðina mína, hver er minn réttur?
Takk fyrir,
Konan með pallinn.
Sæl kona með pallinn.
Í 7.2.3. gr. byggingareglugerðar nr. 112/2012 er svo mælt að afla skuli byggingarleyfis m.a. vegna skjólveggja á lóðum nema framkvæmdin sé undanþegin byggingarleyfi. Í umsókn um bygggingarleyfi skal t.d. afla samþykkis meðeiganda eða annarra aðila eftir atvikum. Í 2.3.5. gr. reglugerðarinnar er hins vegar sérstaklega kveðið á um svokallaðar minni háttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi. Í f-lið ákvæðisins eru nefndar framkvæmdir sem varða skjólveggi og girðingar á lóð. Hvort hin fyrirhugaða framkvæmd sé undanþegin byggingarleyfi veltur á því hvers eðlis viðkomandi skjólveggur kemur til með að vera en í f-lið framangreinds ákvæðis segir að skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m séu undanþegin byggingarleyfi.
Einnig girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum. Þá segir að lokum að lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Þannig ber ávallt að afla samþykkis beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggs.
Í spurningu þinni er þess getið að sá hluti lóðar sem skjólveggurinn verður reistur á er í þinni eigu. Almennt felst í slíku eignarhaldi einkaréttur til afnota og umráða yfir þeim hluta lóðarinnar sem aðrir verða að hlíta. Hins vegar kann að vera nauðsynlegt að bera fyrirhugaða framkvæmd undir húsfund ef framkvæmdin er til þess fallin að hafa áhrif á útlit hússins og lóðarinnar. Í þínu dæmi virðist vera um minni háttar útlitsbreytingu að ræða, sbr. framangreint er varðar ákvæði byggingareglugerðarinnar, og mætti því telja að samþykki einfalds meiri hluta væri fullnægjandi, sbr. 3. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga.
Kær kveðja,
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA
Heimild: Mbl.is