Home Fréttir Í fréttum Rúmlega 1200 hitaveituör lögð til Hafnar í Hornafirði

Rúmlega 1200 hitaveituör lögð til Hafnar í Hornafirði

181
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

RARIK stendur í miklum framkvæmdum á Höfn í Hornafirði við að hitaveituvæða bæinn. Leggja þarf stofnæð um 20 kílómetra leið.

<>

Forstjóri RARIK, segir að hitaveitan verði fyrst um sinn álíka dýr og rafhitun en ódýrari þegar fram í sækir.

Heita vatnið kemur úr borholum í Hoffelli en orkan úr þeim dugar til að hita hús á Höfn og í Nesjum. Hafin er smíði á stjórnhúsi, dælustöðvum og heitavatnstanki, hann verður tíu metra hár og tekur 350 tonn af vatni.

Inn í tankinn liggja rör úr fjórum borholum, þrjár verða virkjaðar nú og sú fjórða er til vara. „Við erum með vatn frá 76 og upp í 82 gráður. Mjög hreint nánast neysluhæft og svo þurfum við að koma þessu saman í miðlunartank, dæluhús og 20 kílómetra lögn út á Höfn,“ segir Pétur Unnsteinsson, starfsmaður RARIK á Höfn.

Um 2000 suður
Vatnið kólnar um 3-4 gráður á leiðinni en á að vera um 76-7 gráðu heitt á leiðarenda inni á Höfn. Það er leitt í einangruðum pípum frá Röraverksmiðjunni Seti.

Til að koma heita vatninu frá Hoffelli til Hafnar í Hornafirði um 20 kílómetra leið þarf að leggja rúmlega 1200 hitaveiturör. Hvert rör er 16 metra langt og til að tengja kerfið saman þarf að sjóða um 2000 suður. Þá eru beygjur og tengingar á leiðinni meðtaldar.

Þurfa sérstakt próf til að sjóða saman hitaveiturör
Suðumenn frá Vélsmiðjunni Fossi slá hvergi af og eru komnir þriðjung leiðarinnar. Hvert rör er 543,6 kíló og það þarf tilfæringar við að stilla þau af og klemma saman fyrir suðu. Stundum þarf að tylla rörunum með nokkrum punktum en til að fullsjóða vilja menn hafa frið fyrir veðri og vindum.

Til þess er notaður sérstakur færanlegur rafsuðukofi.
Vanda þarf til suðunnar svo hún endist og leki ekki eftir að lögnin er komin í jörð. Sérstakt suðupróf þarf í verkið og verða stikkprufur af suðunum skoðaðar með röntgenmyndavél. „Við erum að ná kannski 10-12 suðum á dag og svo fer það kannski niður í nokkrar.

Það fer bara eftir aðstæðum, veðri og ýmsu. Maður verður bara að leggja sig fram við það og gera sitt besta svo suðan verði gallalaus,“ segir Ingvar Pétursson, starfsmaður Foss.

Fjarvarmaveitan var orðin óhagkvæm
Stefnt er að því að tengja fyrstu notendur á Höfn við veituna í ágúst. Hún kemur í stað svokallaðrar fjarvarmaveitu sem hitar vatn miðlægt og dælir því um bæinn. Hún notar rafmagn og olíu til vara. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, segir að hún sé orðin óhagkvæm og hækka þyrfti verð til notenda.

Það myndi gera hana dýrari kost en að nota venjulega rafmagnsþilofna. Því borgar sig að nýta heita vatnið úr borholum í Hoffelli. „Í ágúst gerum við ráð fyrir að tengja þá sem eru núna tengdir við fjarvarmaveituna. Í framhaldi förum við að leggja lagnir í það hverfi sem að mestu er núna hitað með rafhitun.“

Ódýrari kostur til framtíðar
Hann segir að hitunarkostnaður íbúa verði svipaður. „Mikill kostnaður hefur farið í að leita þarna að vatni og þetta er ekki til að byrja með ódýrasta hitaveitan. Þannig að við gerum ráð fyrir að það verði sambærilegt verð eins og hefur verið á fjarvarmaveitunni en sjáum hins vegar fram á að til framtíðar verði þetta hagkvæm hitaveita.

Við erum að nota allt að 6 MW í fjarvarmaveituna eins og hún er núna fyrir Höfn og 25% af bænum eru auk þess hitaður með beinni rafhitun. Þannig að þetta eru auðvita heilmikil verðmæti og ekki síst ef við horfum til þess að þarna sé til framtíðar ódýrari kostur heldur en bein rafhitun þegar búið verður að ná niður mesta fjármagnskostnaðinum,“ segir Tryggvi Þór.

Heimild: Ruv.is