Ægisgarður í Gömlu höfninni í Reykjavík er að taka stakkaskiptum. Skúrar sem sett hafa svip sinn á svæðið hafa verið fjarlægðir. Skúrarnir hafa verið aðsetur hvalaskoðunarfyrirtækja undanfarin ár.
Næsta sumar verður búið að koma fyrir nýjum söluhúsum á svæðinu, þar sem ferðamenn geta keypt sér miða í hvala- og lundaskoðunarferðir og aðrar slíkar ferðir. Þá hefur tækifærið verið notað til þess að endurnýja lagnir í jörðu.
Ægisgarður liggur í beinu framhaldi af Ægisgötu. Hann er austan Slippsins og hafa hvalbátar Hvals hf. haft viðlegu við Ægisgarð í áraraðir.
Umferð erlendra ferðamanna hefur stóraukist á svæðinu undanfarin ár og tími kominn til að endurnýja það og fegra.
Faxaflóahafnir skrifuðu undir verksamning við E Sigurðsson ehf. þann 15. maí 2019.
Samningsupphæðin er tæplega 400 milljónir. E. Sigurðsson er að smíða söluhúsin og sér fyrirtækið um allt verkið, þ.m talið jarðvinnuna við Ægisgarð.
Verkinu á að ljúka 30. apríl 2020, að því er fram kemur í umfjöllun um framkvæmd þessa í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is