Starfsmenn RARIK, verktakar og Neyðarlínan hafa lagt mikið á sig í Austdal í Seyðisfirði undanfarnar vikur til að koma íbúum Mjóafjarðar í traust fjarskiptasamband.
Leggja þarf bæði ljósleiðara og rafstreng um viðkvæmt land, fleyga hann niður í klappir og steypa niður í ár við erfiðar aðstæður. Mjófirðingar voru fjarskiptalausir, síma og netlausir, í 20 daga síðasta vetur en nú eru aðeins nokkrar vikur í að ástandið lagist til frambúðar.
RARIK-menn eru að leggja upp frá Seyðisfirði og eiga langan vinnudag fyrir höndum. Til að komast upp í Austdal þarf að nota sexhjól – þau eru létt og fara betur með landið en jepparnir.
„Það er krefjandi, við þurfum að fara yfir mýrar. Það er skárra þegar það er frost en það er hláka á leiðinni núna þannig að við gætum lent í einhverju brasi á leiðinni upp í drullu,“ sagði Hafliði Bjarki Magnússon, verkstjóri RARIK á Austurlandi, áður en lagt er í hann.
Leiðin upp þennan eyðidal liggur um gamlan slóða. Stóru vinnuvélarnar hafa skilið eftir sig djúpa pytti og ekki er í boði að fara út fyrir slóðann því landið er viðkvæmt. Ákjósanlegasti tíminn til framkvæmda var í sumar en hann rann mönnum úr greipum vegna þess tíma sem tók að fá öll tilskilin leyfi.
„Drullan hefur verið gríðarlega erfið viðfangs því hérna sökkva öll tæki á kaf. Við erum búnir að beita aðferðum eins og að skrúfa í sundur gömul kefli og reyna að setja þau í mýrarnar til þess að keyra ofan á þeim.
En þau virðast bara sökkva í drulluna líka en þetta er nú að hafast. Einhverjar skemmdir eru alltaf óhjákvæmilegar í svona framkvæmdum þegar þarf að koma stórum tækjum yfir viðkvæmt land. En í þetta skipti þá ákváðum við að fara alltaf eins og ég segi sömu leiðina þannig að það væri þá bara rask á litlu svæði sem við munum svo koma til með að eyða mikilli orku í að laga eftir okkur,“ segir Hafliði.
Fyrir tveimur árum var lagt yfir eggina á milli Austdals og Brekkugjár í Mjóafirði – hæst í um 900 metra hæð. Núna er lagt bæði í Austdal og í Mjóafirði og lokið við tengingu ljósleiðarans. Mikið erfiði hefur falist í því Erfitt hefur reynst að fleyga klappir en strengurinn þarf að fara um 90 sentimetra niður í jörðina.
Þá þurfa strengirnir að fara yfir tvær ár sem renna á klöpp. Þar hefur þurft að steypa í skurðinn með sérstakri aðferð. Steypublanda er útbúin í strigapoka og hífð út í ána. Þegar RARIK og Neyðarlínan verða búin að leggja þennan ljósleiðara um Austdal komast Mjófirðingar loks í almennilegt fjarskiptasamband.
Einn þeirra sem hefur unnið hörðum höndum að verkinu er Sveinn Guðjónsson verktaki og hans menn. Ekki síst fyrir tveimur árum þegar þeir komu strengnum yfir hæsta hjallann, í hörðustu klöppunum fara menn stundum aðeins hálfan til heilan metra á klukkutíma.
Hann segir þessar erfiðu aðstæður hafa reynt á mannskapinn sem oft komi ekki heim til sín fyrr en undir miðnætti. „Þetta er búin að vera mikil fleygun og bara erfitt land og svo hefur tíðin ekkert verið að leika við okkur.
Það rigndi nú hérna fyrstu þrjá vikurnar núna stóru dropunum og allt búið að vera á floti þannig að þetta hefur svo sem ekkert verið dans á rósum en við sigrum þetta,“ segir Sveinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri Austfirskra verktaka.
Heimild: Ruv.is