Home Fréttir Í fréttum Ættu að vara sig vegna gjaldþrots verktaka

Ættu að vara sig vegna gjaldþrots verktaka

478
0
Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Formaður Húseigendafélagsins segir það færast í vöxt að afhendingar dragist á íbúðum í nýbyggingum. Kaupendur íbúða við Gerplustræti í Mosfellsbæ ættu að vara sig vegna gjaldþrots verktaka.

<>

Afhending 32ja íbúða við Gerplustræti tvö til fjögur í Mosfellsbæ hefur dregist í um átján mánuði og er heildarkostnaður við uppbyggingu íbúðanna kominn 300 milljónir fram úr upphaflegri áætlun.

Verktakinn sem sá um verkið er gjaldþrota og félagið sem stóð fyrir framkvæmdinni er einnig á leið í þrot.
Ásgeir Kolbeinsson, stjórnarformaður Gerplustrætis ehf. sagði í fréttum RÚV á föstudag að verið sé að undirbúa lögsókn á hendur fyrrverandi stjórnarformanni.

Kaupendum hafi nú verið ráðlagt að greiða lokagreiðslu og fá afsal útgefið, því hætta sé á að þeir tapi fjármunum sem þeir hafa þegar greitt vegna kaupanna ef félagið verður tekið til gjaldþrotaskipta.

Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, segir að kaupendur ættu að staldra við það að forsvarsmaður byggingarfélagsins stígi fram með slíkar lausnir.
„Þetta er mjög hættulegt ástand.

Fólk ætti að vara sig og leita lögmannsaðstoðar, þetta er jarðsprengjusvæði að tipla á. Þarna er allt í uppnámi; það er gjaldþrot byggingaraðila og yfirvofandi gjaldþrot félagsins sem heldur utan um þetta.

Þegar forsvarsmaður þess kemur svo eins og Messías með fagnaðarerindi, þá ættu menn aðeins að staldra við,“ segir Sigurður.

Hann segir að Húseigendafélagið hafi í auknum mæli fengið mál inn á borð til sín sem varði drátt á afhendingu íbúða.

„Já, það er svolítið farið að bera á því að afhendingar dragist. Það er mikið byggt og mikið í pípunum. Þegar byggingum fjölgar þá fjölgar eftirmálum líka vegna fasteignaviðskiptanna.“

Ekki hefur náðst í stjórnarformann Gerplustrætis í morgun.

Heimild: Ruv.is