Tilboð í jarðvegsframkvæmdir vegna nýbyggingar Alþingis við Vonarstræti voru opnuð hjá Ríkiskaupum í dag. Verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu 12. september og bárust fjögur tilboð frá innlendum aðilum.
Þrjú tilboðanna voru innan kostnaðaráætlunar.
Tilboðin verða yfirfarin af Framkvæmdasýslu ríkisins og í framhaldinu verður ákvörðun tekin um hvaða tilboði verður tekið. Áætlað er að jarðvegsframkvæmdir hefjist í nóvember, að því er segir í tilkynningu frá Alþingi.
Þá segir, að nú sé verið að fara yfir tilboð á vinnu við að setja steinklæðningu á ytra byrði byggingarinnar. Útboð fyrir vinnu við aðalbygginguna og tengiganga verða auglýst í júní 2020 og er gert ráð fyrir að uppsteypa byggingarinnar hefjist í september sama ár.
Verklok eru áætluð í mars 2023, segir í tilkynningunni.
Heimild: Mbl.is