„Meinum við eitthvað með því þegar við segjum að við ætlum að halda öflugri byggð á öllu landinu?
Mitt svar er já, og þá verður að fylgja því úrlausnarefni,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um fyrirhuguð jarðgöng undir Fjarðarheiði.
Sigurður Ingi segir að það sé með þetta eins og margt annað, að umræður og undirbúningur hafi staðið í áratugi og nú hafi starfshópur komist að niðurstöðu um það hvernig best sé að gera Austurland öflugra og rjúfa vetrareinangrun staða.
Ekki fjármunir sem þú hristir fram úr erminni
Nákvæm kostnaðargreining hefur ekki verið unnin en starfshópurinn áætlar að kostnaður gæti numið um 33 til 34 milljörðum króna.
„Það er rétt að þetta eru umtalsverðir fjármunir og ekki eitthvað sem þú hristir fram úr erminni frá einum degi til annars, en þarna er komin niðurstaða sem við munum taka fyrir hérna í ráðuneytinu og hyggjumst í uppfærðri samgönguáætlun, sem lögð verður fyrir þingið í haust, birta jarðgangaáætlun sem hluta af samgönguáætlun.“
Jarðgangaáætlunin sem Sigurður Ingi hefur í huga er að færeyskri fyrirmynd, en þar búa 50 þúsund manns og þangað sækja nokkur hundruð ferðamanna ár hvert.
„Með sinni aðferðafræði virðast þeir geta tengt saman byggðir og ég velti fyrir mér hvort það sé ekki eitthvað sem við getum tekið upp, verandi sjö sinnum fleiri og með tvær milljónir ferðamanna á ári.“
Áætlunin tryggi samfellu í jarðgangagerð
„Tilgangurinn með jarðgangaáætlun er að tryggja ákveðna samfellu í jarðgangagerð. Það eru miklir hagsmunir í því að menn geti, þó svo að það séu ár eða áratugir í framkvæmdirnar, gert framtíðarplön um uppbyggingu samfélaga og fyrirtækja,“ segir Sigurður Ingi.
Göng undir Fjarðarheiði eru næstu jarðgöng sem gerð verða, en Sigurður Ingi segir að í samþykkt hafi verið í síðustu samgönguáætlun, sem lögð var fram í febrúar, að næstu jarðgöng yrðu gerð til Seyðisfjarðar.
Sigurður Ingi segir að tvö ár hið minnsta þurfi í undirbúning áður en verkið fer í útboð, og að starfshópurinn meti það svo að allt að sjö ár geti tekið að bora í gegnum heiðina, en um verður að ræða lengstu jarðgöng Íslands: 13,4 kílómetrar.
Hvað fjármögnun jarðgangnanna varðar telur starfshópurinn ekki möguleika á hreinu samvinnuverkefni með notendagjöldum, líkt og notast var við við gert Hvalfjarðarganga.
„En það er vilji heimamanna að taka upp notendagjöld. Við erum að skoða samstarfsfjármögnun þar sem annars vegar eru tilgreindir ákveðnir fjármunir á samgönguáætlun í þessa jarðgangagerð, og hins vegar notendagjöld sem kæmu að því að greiða fyrir stofnkostnaðinn og rekstur og viðhald gagnanna sem og annarra jarðgangna í framtíðinni. Það er hið færeyska módel.“
Heimild: Mbl.is