Home Fréttir Í fréttum Hverfisgata opnar í seinni hluta september

Hverfisgata opnar í seinni hluta september

129
0
Mynd: Ruv.is
Hverfisgata verður opnuð fyrir allri umferð á ný í seinni hluta september. Framkvæmdir í götunni á milli Ingólfsstrætis og Smiðjustígs hafa tafist en upphaflega var ráðgert að hleypa bílaumferð um götuna í lok ágúst.

Verslunar- og þjónusturekendur við Hverfisgötu eru mjög óánægðir með hversu langan tíma hefur tekið að endurgera götuna. Í síðustu viku var eigendum fyrirtækja við götuna tilkynnt um seinkun, meðal annars vegna þess hversu erfitt reyndist að fá menn í vinnu um verslunarmannahelgina.

<>

Ásmundur Helgason, eigandi kaffihússins Gráa kattarins, segir að upplýsingaflæði til verslana og þjónustufyrirtækja við Hverfisgötu hafi verið lélegt.

Í kjölfar frétta af óánægju eigenda fyrirtækjanna sendi Reykjavíkurborg frá sér tilkynningu til fjölmiðla um að Hverfisgatan yrði opnuð í áföngum á næstu vikum. Gönguleiðir hafa verið opnar á framkvæmdatímanum á pöllum, eins og aðkomuleið að bílastæðahúsinu Traðarkoti.

Þessa dagana er unnið við lagnir og endurnýjun bæði fráveitu- og hitaveitulagna. Stefnt er að því að fylla upp í skurði sem grafnir hafa verið í götuna fyrir Menningarnótt í Reykjavík, sem er um aðra helgi.

Þá er gert ráð fyrir að gatan verði opnuð gangandi vegfarendum. Um mánaðamót á svo að malbika. Hellur verða svo lagðar fyrir framan Þjóðleikhúsið og á gagnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis.

Heimild: Ruv.is