Home Fréttir Í fréttum Arion banki til­kynnir nýtt lánaframboð

Arion banki til­kynnir nýtt lánaframboð

17
0
Arion banki hefur kynnt nýtt lánaframboð. Vísir/Vilhelm

Arion banki hefur kynnt nýtt húsnæðislánaframboð í kjölfar óvissunnar sem skapaðist á íbúðalánamarkaði í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar í máli gegn Íslandsbanka.

Nú verða í boði verðtryggð íbúðalán með fasta vexti til þriggja eða fimm ára og lánstíma allt að þrjátíu ár og einnig óverðtryggð íbúðalán með fasta vexti til þriggja ára, með lánstíma allt að fjörutíu ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bankans. Bankinn gerði líkt og Íslandsbanki og Landsbankinn tímabundið hlé á veitingum verðtryggðra lána. Mikil óvissa hefur verið á húsnæðismarkaði undanfarnar vikur vegna þessa.

Tvennskonar lán

Þannig býður Arion banki nú upp á óverðtryggð íbúðalán með fasta vexti til þriggja ára, þar sem lánstími er allt að fjörutíu ár.

„Á þriðja ári fastvaxtatímabilsins og út lánstímann verður hægt að óska eftir endurfjármögnun án uppgreiðslugjalds og geta viðskiptavinir þá valið á milli þeirra lánakosta sem í boði verða á þeim tíma. Verði lánið ekki endurfjármagnað fyrir lok fastvaxtatímabilsins taka við þeir breytilegu vextir bankans sem í boði eru á þeim tíma að viðbættu föstu vaxtaálagi sem tilgreint er í skilmálum lánsins.“

Þá eru einnig í boði verðtryggð íbúðalán með fasta vexti til þriggja eða fimm ára, lánstími allt að þrjátíu ár.

„Á lokaári fastvaxtatímabilsins og út lánstímann verður hægt að óska eftir endurfjármögnun án uppgreiðslugjalds og geta viðskiptavinir þá valið á milli þeirra lánakosta sem í boði verða á þeim tíma. Verði lánið hins vegar ekki endurfjármagnað fyrir lok fastvaxtatímabilsins taka við hærri fastir vextir út lánstímann sem tilgreindir eru í skilmálum lánsins.“

Eigi að skapa fyrirsjáanleika

Á vef bankans segir að hægt verði að óska eftir endurfjármögnun á lokaári fastvaxtatímabilsins og út lánstímann án uppgreiðslugjalds.

Mun bankinn hafa samband við viðskiptavini áður en fastvaxtatímabilinu lýkur til að ræða þá kosti sem í boði eru. Á síðustu árum hafi viðskiptavinir Arion banka að meðaltali endurfjármagnað sín íbúðalán að þremur til fimm árum liðnum.

„Fyrirfram ákveðin hækkun vaxta eftir að fastvaxtatímabili lýkur skapar ákveðinn fyrirsjáanleika fyrir lántakendur og er nauðsynleg til að verja bankann fyrir fjárhagslegri áhættu sem myndast ef lántaki endurfjármagnar ekki lánið að tímabilinu liðinu.

Lánum til 30 eða 40 ára fylgir annars konar áhætta fyrir bankann en lánum til þriggja eða fimm ára því á nokkrum áratugum getur margt gerst sem hefur áhrif á fjármögnunarkostnað bankans. Stýrivextir eða annars konar vaxtaviðmið ein og sér verja ekki slíka áhættu.“

Markmiðið sé að bjóða sem hagstæðust kjör í upphafi og eins viðráðanlega greiðslubyrði og kostur er. Þannig telji bankinn álag á vexti eða vaxtahækkun að fastvaxtatímabilinu liðnu bestu leiðina í ljósi núverandi óvissu á íbúðalánamarkaði.

„Lánaformin tvö eru sett fram með það að markmiði bjóða viðskiptavinum upp á sem hagstæðust kjör í upphafi og greiðslubyrði sem er eins viðráðanleg og kostur er miðað við þær skorður sem núverandi lagaóvissa setur á meðan beðið er niðurstöðu fleiri mála hjá Hæstarétti.“

Heimild: Visir.is