Reykjavíkurborg hefur samþykkt niðurrif á átta húsum og einni botnplötu á lóðinni númer 10 við Kjalarvog. Samanlagt flatarmál þessara bygginga er 5.727 fermetrar.
Byggingarnar, sem standa á Gelgjutanga, þurfa að víkja fyrir íbúðarbyggð, svokallaðri Vogabyggð 1. Gelgjutangi er smánes sem skagar út í Elliðaárvog á móts við Grafarvog.
Á Gelgjutanga hófst uppbygging skipasmíðaiðnaðar á árum seinni heimsstyrjaldar og þar var byggð lítil dráttarbraut.
Meðal fyrirtækja á nesinu voru Keilir, Landssmiðjan og Bátanaust. Olíufélagið hf.(Essó), nú N1, var með einnig starfsemi á Gelgjutanga.
Takmörkuð starfsemi hefur verið í húsunum síðustu árin.
Samkvæmt húsaskrá eru byggingarnar sem rífa á reistar á árunum 1948-1981. Yngsta byggingin og jafnframt sú stærsta er lagerbygging frá 1981, 2.669 fermetrar.
Sú næststærsta og jafnframt elsta er geymsla, byggð árið 1948.
Það er fyrirtækið U14-20 ehf., Borgartúni 25, sem sækir um leyfi til niðurrifsins. Í hlutafélagaskrá kemur fram að þetta er einkahlutafélag, stofnað árið 2017.
Starfsemi þess er bygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Stofnandi er Steinsteypan ehf., Koparhellu 1 í Hafnarfirði.
Skráður stjórnarformaður er Jóhann Ásgeir Baldurs og meðstjórnandi Daníel Þór Magnússon. Hann er jafnframt framkvæmdastjóri og prókúruhafi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag
Heimild: Mbl.is