Fjölnota knatthús rís hratt þessa dagana á íþróttasvæðinu á Varmá í Mosfellsbæ. Í húsinu verður aðstaða fyrir knattspyrnufólk en einnig æfingaaðstaða fyrir fleira íþróttafólk og göngu- og hlaupabraut fyrir almenning.
Knatthúsið rís á milli íþóttahúss og gervigrasvallar bæjarins. Það er tæpir 4.000 fermetrar að grunnflatarmáli. Sökklarnir eru steyptir og veggir upp í hálfs annars metra hæð.
Ofan á þá er reist stálgrind sem klædd verður með vönduðum plastdúk á innra og ytra byrði.
Gervigras verður á knattspyrnuvellinum sem verður 65 sinnum 42 metrar að stærð og því rúmlega hálf lögleg stærð vallar. Tartan-yfirlag verður á 60 metra langri hlaupabraut og göngu- og upphitunarbraut verður lögð hringinn í kringum gervigrasvöllinn.
Við húsið verður stakstætt salernishús en íþróttafólkið mun í upphafi nota þá búningsklefa sem fyrir eru á svæðinu. Húsið verður hitað upp í 10-15 gráður.
Heimild: Mbl.is