Framkvæmdastjóri Nýs landspítala ohf. (NLSH), Gunnar Svavarsson, segist vona að hægt verði að afhenda heilbrigðisráðuneytinu nýtt sjúkrahótel nú í janúar, en félagið tók við verkinu ókláruðu 30. nóvember af verktakanum Munck Íslandi ehf. vegna ágreinings.
Fór NLSH fram á tafarlausa afhendingu þrátt fyrir að verkið stæði óklárað. Spurður hver staða verksins sé nú svarar Gunnar að staðan sé nokkuð góð og að vikuna eftir að NLSH tók við húsinu var rýnt í stöðumat hússins og kortlagt hvað væri eftir að framkvæma og í kjölfarið var samið við undirverktaka um að klára verkið.
Hann telur ekki langt í að húsið verði fullklárað. „Búnaðurinn er eiginlega allur kominn inn og það eru stillingar á hússtjórnunarkerfinu í gangi og vantar líka smáatriði varðandi svalirnar,“ segir framkvæmdastjórinn og bætir við að „allt sem var eftir í samningnum er á lokastigi í þessari viku“.
Enn er mikið eftir af framkvæmdum við byggingu nýja spítalans, en næst tekur við gatnagerð og jarðvinna fyrir meðferðarkjarnann sem er þriggja milljarða króna framkvæmd.
Þá verður næsta stóra útboð uppsteypan á meðferðarkjarnanum, en ekki er ljóst hvort það verður boðið út í heilu lagi eða með fleiri útboðum, að því er fram kemur í umfjöllun um sjúkrahótelið i Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is