Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir verktaka og ríkið hafa brugðist í húsnæðismálum. Verktakar hafi verið tregir til að byggja smærri íbúðir og ríkið dregið að samþykkja stofnframlög til félagslegra íbúða.
„Við urðum vör við ákveðna íhaldssemi og að aðilar á byggingarmarkaði höfðu kannski ekki alveg trú á því að einstaklingar væru tilbúnir að kaupa íbúðir í uppbyggingu með færri bílastæðum í kjallara, eða minni íbúðir, fyrr en það reyndist síðan raunin,“ segir Dagur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Hafin verður bygging 1.400-1.500 íbúða í borginni í ár. Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá borginni, áætlar að um 70% þeirra, eða um 1.000, verði tilbúin innan tveggja ára. Dagur kynnti að framkvæmdir væru hafnar á reitum þar sem má byggja 5.000 íbúðir. Óli Örn áætlar að þar af eigi eftir að hefja byggingu um 1.500 íbúða.
Heimild: Mbl.is