Home Fréttir Í fréttum Ræða möguleika þess að byggja nýjan Tækniskóla

Ræða möguleika þess að byggja nýjan Tækniskóla

282
0
Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Stjórn Tækniskólans skoðar nú möguleika þess að byggja nýtt hús sem gæti hýst alla starfsemi skólans á einum stað.
Skólameistari segir að búið sé að ræða við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu en hugmyndin sé á frumstigi.

Tækniskólinn er nú rekinn í tíu húsum á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu, í tveimur sveitarfélögum í Hafnarfirði og Reykjavík.

<>

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari segir að húsin séu mörg komin til ára sinna og erfitt sé að aðlaga þau að nútíma kennsluháttum. Ríkið á megnið af húsnæði skólans.

„Okkur dreymir um nýtt skólahúsnæði, að komast á einn stað. Miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu í góðum tengslum við almenningssamgöngur og umferðarkerfi borgarinnar.

Við teljum að það geti orðið mikil lyftistöng fyrir iðn- og tækninám í landinu,“ segir Hildur.

Skipuð hefur verið byggingarnefnd til að taka fyrstu skrefin og og kanna möguleika á slíkri framkvæmd. Rætt hefur verið við sveitarfélög höfuðborgarsvæðins.

„Það hafa bara verið óformlegar viðræður ábendingar um mögulegar staðsetningar en það eru engar viðræður um lóðir eða neitt slíkt. Þetta er bara allt á frumstigi.

En við viljum gera þetta áður en við tökum ákvarðanir um að fara lengra sem væri þá að ræða við stjórnvöld,“ bætir hún við. Hildur segir að grófar áætlanir sýni að nýtt húsnæði þyrfti að vera 30 þúsund fermetrar en ekki sé tímabært að ræða kostnað framkvæmdarinnar.

Mikil óánægja með hvernig staðið var að sameiningu Iðnskólans í Hafnarfirði við Tækniskólann leiddi til þess að ákveðið var að halda kennslu sem var í iðnskólanum í Hafnarfirði. „Ég er nýtekin við þessu starfi. En ef mig rekur minni til þá var sagt að það yrði áfram starfsemi í Hafnarfirði sem var, áfram starfsemi hér og á Háteigsvegi.

Núna dreymir okkur um einn skóla. Þetta eru breyttar forsendur og þá augljóslega skoðum við alla staði. Aðalástæðan er að lyfta iðn- og tækninámi upp.“

Heimild: Ruv.is