Undir Urriðavatni í Fellum eru æðar með heitu vatni og er jarðhitinn nýttur til að kynda hús á Egilsstöðum og í Fellabæ.
Nú stendur til að nýta jarðhitann enn frekar og hófust framkvæmdir við nýja baðstaðinn Vök í lok maí. „Framkvæmdir ganga mjög vel; við erum um það bil að fara að steypa gólfplötu í helmingnum af húsinu.
Það er sem sagt búið að reisa helming hússins og við stefnum ótrauð á að opna eins og áætlun gerði ráð fyrir næsta sumar í júní-júlí.
Stærðin á byggingunni er yfir þúsund fermetrar og búningsklefarnir rúma tvö hundruð skápa, þannig að með aðgangsstýringu komum við hérna í gegn á degi hverjum vel rúmlega þúsund manns,“ segir Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths.
Jarðhitinn undir Urriðavatni uppgötvaðist á sínum tíma vegna þess að svokallaðar Tuskuvakir héldust á vatninu sama hvernig frysti. Þjóðsögur sögðu frá dularfullri skepnu sem kölluð var Tuska og ferðaðist um vakirnar og einnig vatnahesti, svonefndum nykri.
„Kjarnaupplifun verkefnisins eru laugar sem verða úti í vatninu sem við kjósum að kalla vakir en þar er stefnan að líkja eftir þeim vökum sem mynduðust hérna á Urriðavatni á árum áður þegar ísinn lagði.
Rauði þráðurinn er heita vatnið okkar, þetta heita vatn sem er eina vottaða heita vatn til drykkjar á Íslandi og við ætlum að nýta það í veitingahlutann. Meðal annars í bjór, það er búið að framleiða fyrir okkur sérstakan heitavatnsbjór,“ segir Heiður.
Þá verður heita vatnið nýtt í grauta, te og til að hægbaka brauð, og áhersla lögð á mat úr Héraði. Starfsmenn verða allt að tólf talsins og búist er við 65 þúsund gestum fyrsta árið.
Heimild: Ruv.is