Tafir á byggingarframkvæmdum geta aukið kostnað við nýjar íbúðir um tugi þúsunda á fermetra. Sá kostnaður getur samanlagt numið milljónum á hverja íbúð. Þetta má ráða af greiningu Vilhjálms Hilmarssonar, hagfræðings hjá Samtökum iðnaðarins.
Tilefnið er umfjöllun í Morgunblaðinu í fyrradag um ítrekaðar tafir á byggingu Höfðatorgs. Þar var rætt við Pétur Guðmundsson, stjórnarformann Eyktar, sem sagði félagið hafa orðið fyrir margvíslegu tjóni vegna hægagangs í afgreiðslu skipulagsyfirvalda hjá borginni.
Til dæmis hefði Eykt beðið í 11 mánuði eftir að borgin afgreiddi eignaskiptalýsingu í Bríetartúni 9-11. Þar verða 94 íbúðir og þjónusta á jarðhæð.
Vilhjálmur Hilmarsson, sérfræðingur í greiningum hjá Samtökum iðnaðarins, segir tafir á byggingarframkvæmdum í stjórnsýslu sveitarfélaga skapa aukakostnað fyrir samfélagið. Vilhjálmur tók dæmi af kostnaði af eins árs töfum á byggingu 125 fermetra íbúðar í 4-5 hæða fjölbýlishúsi í úthverfi á höfuðborgarsvæðinu.
Hækkun fasteignaverðs vegna slíkra tafa geti orðið allt að 50 þúsund krónur á fermetra vegna aukins fjármagnskostnaðar húsbyggjanda. Það leiði aftur til þess að afborganir af 40 ára jafngreiðsluláni hækki um allt að 15-20 þúsund krónur á mánuði. Sú hækkun sé háð samkeppni á markaði og lánaskilmálum.
Heimild: Mbl.is