„Þetta eru mikil tímamót eftir mikla baráttu. Það trúðu því fáir að þarna myndi rísa byggð,“ segir Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Vals, í tilefni af því að fyrstu íbúðir nýs hverfis við Hlíðarenda eru komnar í sölu.
Um er að ræða fjölbýlishúsið Arnarhlíð 1. Þar eru 40 íbúðir. Valsmenn hf. og sjálfseignarstofnun Vals eiga húsið. Samkvæmt söluvefnum Hlíðarendabyggð er meðalstærð íbúðanna um 71 fermetri og meðalverðið um 47,3 milljónir. Fermetraverð er því um 666 þúsund.
Byggingarreitir á Hlíðarenda eru flokkaðir með bókstöfunum A-H. Brynjar reiknar með að framkvæmdum við um 700 íbúðir á reitum C-F ljúki innan fjögurra ára, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is