Framkvæmd við Hafnartorgið hafa gengið vel fyrir sig og er stefnt að því að þeim ljúki á þessu ári.
ÞG Verktakar hafa verið starfandi í 20 ár og hefur fyrirtækið komið að stórum verkefnum víðs vegar um landið. Fyrir utan það að hafa byggt hundruð íbúða fyrir almennan íbúðamarkað, hefur fyrirtækið einnig þróað og byggt fjölbreytt atvinnuhúsnæði og tekið að sér fjölmörg stórverkefni á útboðsmarkaði. Eitt helsta verkefni fyrirtækisins um þessar mundir hefur falist í framkvæmdum á Hafnartorgi.
Keypt árið 2016
Um er að ræða svæðið við Tollhúsið í Reykjavík. Samkvæmt heimasíðu ÞG Verktaka ehf. keypti Reykjavík Development ehf. landið sem um ræðir árið 2013 og í byrjun sumars 2016 keypti ÞG verkefnið í heild sinni. Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verktaka, segir þetta hafa verið kjörið tækifæri. „Við fundum fyrir þörf á vel skipulögðu svæði í miðbæ Reykjavíkur sem hægt væri að bjóða kaupendum með kröfur þegar kemur að aðgengi, lúxus, einkarétti og nýstárlegri hönnun.” Framkvæmdirnar fara nú að síga inn í lokasprettinn og því ætti öllu að vera lokið fyrir árslok 2018. „Núna er verið að sinna frágangi að utan, en samtímis er verið að vinna innanhúss. Það er verið að leggja leiðslur og verið að ganga frá tæknilegum málum og svo er vinna í kringum bílakjallarann og annað þess háttar.“
Það gefur því auga leið að reiturinn verður iðandi af lífi á næstu árum. Ekki verður aðeins hægt að sækja verslun og þjónustu á Hafnartorgið, heldur verða þar einnig ýmsar skrifstofur og íbúðir af ýmsum stærðargráðum.
Sjö byggingar
Alls er um sjö byggingar að ræða og nemur heildarstærð verkefnisins 23.350 fermetrum. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins verða 76 íbúðir á svæðinu. Þær verða þó ekki allar eins, því reynt var að tryggja að hægt væri að finna allt frá stúdíóíbúðum upp í þakíbúðir með útsýni.
Samkvæmt Þorvaldi verða um 8.000 fermetrar nýttir undir þjónustu og verslun. „Það var strax gerður samningur við Regin um að hýsa verslanir á jarðhæðum. Þau rými höfum við því selt frá okkur. Reginn er svo búinn að ráðstafa hluta af þeim. Þannig að búið er að gera samninga við ýmsa aðila og þá er búið að tryggja nýtingu á mikilvægum rýmum.“
Á Hafnartorginu verður þó, eins og áður var nefnt, hægt að finna ótal skrifstofurými í tveimur byggingum. Samtals verða um 6.400 fermetrar nýttir í þá starfsemi. Þorvaldur segir þessi rými bjóða upp á ýmis tækifæri. „Þessi rými eru tilvalin fyrir bæði innlend og erlend fyrirtæki sem vilja setja upp skrifstofur í öruggu, áhugaverðu og fjölbreyttu umhverfi í hjarta borgarinnar.“ Aðspurður segist hann einnig reikna með því að ÞG Verktakar muni koma að því að eiga og leigja út í skrifstofuhlutanum.
Bílastæðakjallari er neðanjarðar og er gert ráð fyrir tengingu við Hörpu. Arkitektastofan PK Arkitektar, sem er jafnvel hvað þekktust fyrir friðarsúluna og íslenska sendiráðið í Berlín, leiðir verkefnið.
Heimild: Vb.is